Friday, March 09, 2007

Kamma kennslukona i Kina

Mikið rosalega stuðlar þetta vel!

Hvað þekkið þið marga kennara sem mæta í tíma í converse skóm og diesel gallabuxum? Ekki fleiri en þrjá, það er ég viss um. Mér finnst mjög gaman að kenna. Þetta er allt annað kerfi, krakkarnir eru alls ekki jafn agaðir og ég bjóst við, rétta aldrei upp hönd og vilja helst komast algjörlega hjá því að segja nokkuð upphátt eða svara spurningum, þeim finnst rosalega gaman að endurtaka orð sem ég segi saman í kór til að læra framburðinn. Núna gengur mér bara vel að kenna, veit við hverju ég á að búast og að ég þarf að skipta þeim í hópa og neyða hópinn til að spyrja spurninga í sameiningu. Ég held að ég hafi ekki kennt neinum bekk með færra en 50 nemendum í og aldurshópurinn er 15-20 ára! Sum þeirra eru eldri en ég!!!!!!!!!!!!! Þau eiga öll að vera 17 en það eru rosalega margir á undan og frekar margir á eftir. Nú ætti ég að vera komin í helgarfrí en þar sem það var engin kennsla á mánudaginn verðum við að kenna á laugardaginn í staðinn! Auðvitað, það er líka þannig á Íslandi....

Reyndar er ekki hægt að miða líf nemandanna hérna við lífið á Íslandi. Allir nemendurnir vakna klukkan sex, þá fá þeir 10 mínútur til að þvo sér í framan og bursta tennur, síðan eiga þeir að koma sér út í leikfimi. Klukkan 7 fá þeir líka nokkrar mínútur til að borða morgunverð og fara síðan að lesa, það er lestrartími til klukkan 8. Þá er kínverski þjóðsöngurinn spilaður. 8:10 byrjar fyrsta kennslustundin, eftir tvær 45 mínútna kennslustundir er hálftíma hlé, klukkan 12 er tveggja tíma hádegishlé. Klukkan hálf 4 klárast tímarnir, klukkan hálf sex er matur í matstofunni og klukkan sex er kínverski þjóðsöngurinn spilaður aftur. Þá fara nemendurnir aftur í tíma sem standa til klukkan 9. Klukkan 10 er kínverski þjóðsöngurinn spilaður enn á ný og þá eiga þeir að fara að sofa. Þessi rútína gengur hring eftir hring nema annan hvern sunnudag fá þau einn dag í frí en þá geta þau skemmt sér t.d. við heimanámið! Ímyndið ykkur þetta líf áður en þið kvartið undan skólanum aftur.

Í dag fékk ég hjól, ég held að það sé 15 ára gamalt eða svo og það er alls ekki þægilegt en samt er það hjól þannig að við Dom fórum í hjólreiðatúr, hjóluðum í 2 klukkutíma, tíminn líður svo hratt hérna, það er alveg ótrúlegt! Þó við gerum lítið þá líður hver dagur ótrúlega hratt, í dag keyptum við fullt af ávöxtum. 5 kg vatnsmelónu, tvo ananasa, bananakippu, síðan eigum við durian, jarðarber og papaya... Ég dýrka ávexti!

Á linknum hér fyrir neðan getið þið skoðað myndir af fyrstu íbúðinni minni, ekki alveg það sem ég bjóst við en maður veit aldrei hvað gerist í þessu lífi (er ég nokkuð farin að hljóma eins og mamma? Ég gaf Dominic ráðin "hlustaðu á hjartað þitt" um daginn og þá var ég eins og bergmál frá minni yndislegu mömmu!):

Smá lýsing: Aukaherbergið er með hjólunum í, stofan er frekar litlaus en þar er vatnsvél og sjónvarp, baðherbergið er augljóslega baðherbergi, í sturtunni er eina heita vatnið í þessari íbúð og það er bara á daginn, vaskurinn sem ég tek mynd af með kertaljósi er eldhúsvaskurinn, þar fer allt uppvask fram, síðan má sjá eldunaraðstöðuna mína (ein hella og hrísgrjónasuðuvél,reyndar er líka örbylgjuofn ofan á ísskápnum sem við notum til að hita brauð). Við getum ekki skipt um ljósaperu í eldhúsinu vegna þess að við eigum ekki ljósaperu og við náum ekki upp í loft, það er mjög hátt til lofts í eldhúsinu og þó við stöndum ofan á borðunum okkar þá náum við ekki í ljósaperuna þannig að við verðum að notast við kertaljós á kvöldin. Llitríka græna dæmið í horninu á mínu herbergi með pelíkönum á er fataskápurinn minn!

Mér tekst ekki að setja myndirnar á netið þannig að þetta verður að bíða betri tíma......
***

Every place I go I think of you, every song I sing I sing for you. So kiss me and smile for me, tell me that you´ll wait for me, hold me like you´ll never let me go ´cause I´m leaving on a jet plane, don´t know when I´ll be back again... oh babe, I hate to go! ...

No comments: