Sunday, July 13, 2008

Why trust you? You never made a dream come true!

Ég sit heima hjá foreldrum mínum og horfi á sjónvarp, við áttum mjög ánægjulegan dag og þá sérstaklega kvöldverð (önd með rommsósu). Nú færist alvara í leikinn með Le Havre, ég hamast við að fá námslán og reyni að velja mér húsnæði. Ég bíð eftir Stulla sem kemur heim af eistnahátíð á Austurlandi í kvöld eða nótt. Ham og læti, hann er himinlifandi. Í ágúst ætla ég að vera dagvinnulaus, mun eyða dögum mínum í lærdóm og barnapössun ef einhverjir fallegir eiga góð börn sem þau vilja losna við. Þá fer ég líka í sumarbústað með foreldrum mínum og öllum vinum þeirra. Þannig verður verslunarmannahelgin mín. Segið svo að ég sé ekki kúl!

Thursday, July 03, 2008

Vinna vinna vinna

Ég vinn mikið, er í 3 vinnum.

Dagvinnan er flokkstjóri hjá Bæjarvinnunni. Þar sé ég til þess að Fjölskyldu- og Húsdýragarðurinn hverfi. Ég er með frábæran hóp, þvílíkar gellur og skemmtilegar þar að auki. Fasta starfsfólkið þar er einnig skemmtilegt, Samlokugaurinn er vinsæll og bróðir hans, Maðurinn, einnig. Þeir virðast vinna við að keyra um á litlum bílum í leit að gellum.

Kvöldvinnan er úthringingar hjá Hagstofu Íslands. Fólk kann svo vel að meta þá vinnu. Eilíf gleði fylgir því að hringja í fólk og spyrja það spjörunum úr. Ég fæ líka að velja fólkið sjálf og veit því hverjir vilja taka þátt og hvenær þeir hafa tíma aflögu.

Næturvinnan er barþjónn á Apótekinu. Best skipulagði bar sem ég hef komið inn á og æðisleg vinnuaðstaða. Þar eru sléttujárn á kvenmannsklósettinu. Djamma sjaldan þar og vinir mínir komast ekki inn vegna dresscode þ.a. ég lendi sjaldan i því að fólk krefjist afsláttar. Nema "því þú ert svo falleg og lífið er yndislegt og ég ætla að bjóða þér í partí" töffurum. Mér finnst fólk sem drekkur vodka og burn um miðja nótt og kelar svo fram eftir aldri kúl. Megakúl.

Síðan á ég vini sem komu og fögnuðu afmæli mínu með mér þegar það átti við í virkilega skemmtilegu partíi. Tveir túristar voru þar á meðal, Daisy og Dominic. Ég var í fríi með þeim og var þá mun þreyttari en nokkurn tíma í vinnunni. Sætt samt að koma. Sem betur fer var Stulli einn heima rétt eftir dvöl þeirra og ég var því í mikilli afslöppun og kynnti mér myndir sem Kevin Smith leikstýrði. Yndislegt.