Tuesday, September 19, 2017

Bakverkir og lífstílsbreytingar

Ég ligg í rúminu mínu eftir langan dag þar sem eina sem ætlast var til af mér var að fara með börnin mín tvö í leikskólann.
Mér tókst það.
Það tók að vísu 40 mínútur og ætti að taka korter, en það hafðist þó.
Hrafn tafði okkur um 12 mínútur í stiganum því hann vildi láta halda á sér niður og tæplega tveggja ára guttinn skildi ekki "nei, mamma GETUR EKKI haldið á þér, ég VIL ALVEG halda á þér en ég get það ekki, þú verður að labba" eða ef hann skildi það þá fannst honum rökin ekki nógu góð.

Síðan þá hef ég legið í rúminu, tekið sex parkódín og þrjár íbúfen, drukkið mikið vatn, reynt að teygja án þess að hreyfa hrygginn og hvílt mig. Mér var nefnilega skipað að vera heima og hvíla mig í viku vegna bólgu og bakverkja.

Læknirinn harðneitaði að giska hvað gæti verið að en ætlar að senda mig í sneiðmyndatöku. Mér finnst líklegt að ég sé með klemmda taug því ég er með náladofa í vinstri fætinum. Rósa heldur að ég sé með brjósklos. Google telur líklegt að ég sé með klemmda taug, brjósklos, æxli eða MS. Ég er ánægð með lækninn fyrir að neita að giska.

Hann ætlar að tala við mig aftur þegar hann fær niðurstöður ur sneiðmyndatökunni. Sem minnir mig á að ég þarf að hringja í Domus og reka á eftir henni, þau áttu að hringja í mig í dag.

Læknirinn sagði mér líka að ég þyrfti að fara í sjúkraþjálfun "því þú ræður greinilega ekki við þetta ein" og að minnka við mig vinnu "þú ættir að fá þér svona hlutastarf eins og margar konur eru í". Þ.a. ég mun gera það. Ekkert annað í stöðunni en að setja heilsuna í fyrsta sætið, heimilið í annað og vinnuna í þriðja.

Ég ætla að blogga um þetta í leiðinni, svona fyrst ég mun hafa tíma til þess.

Það sem liggur fyrir er að ég er að ofgera mér, líkamlega. Mér líður betur í dag heldur en mér leið í gær þökk sé hvíldinni, lyfjunum, og kremunum.

Í gær gekk ég niður í Mjódd, sem tekur venjulega 8 mínútur (þetta veit ég þökk sé strætóappinu) en tók 28 mínútur. Þegar þangað var komið var ég svo kvalin vegna ofreynslu að það leið næstum yfir mig á biðstofunni, þ.e.a.s. mig svimaði svakalega. Ég bað lækni sem átti leið hjá um að rétta mér vatnsglas og sú hélt greinilega að ég væri eitthvað geðveik því hún spurði mig aftur og aftur hvern ég ætlaði að hitta og hvar ég ætti eiginlega að vera. En ég náði að drekka vatnið og hvíla bakið í frábærri stöðu þar sem ég krýp fyrir framan stól og halla mér á hann í nokkrar mínútur þar til læknirinn sem ég átti að hitta kom og ég haltraði inn til hans. Þar kom ég illa frá mér öllum upplýsingum en hann virtist samt skilja mig, aðalega skildi hann að ég væri kvalin.

 Ég set mér hérmeð þrjú markmið sem ég ætla að standa við.

1. Að hvílast nóg, neyða mig til að slaka á svo ég geti sinnt börnunum mínum.
2. Að hreyfa mig fimm sinnum í viku, þó hreyfingin fari eftir dagsforminu - ætla að leggja sérstaka áherslu á jóga.
3. Að gera matarplan, ég þarf bæði að forðast mat sem eykur bólgumyndun og að spara pening fyrst ég þarf að minnka við mig vinnu.

No comments: