Wednesday, September 20, 2017

Allt að gerast

Mér líður mikið betur, er betri í dag en í gær.

Í morgun vaknaði ég við ungan skælbrosandi herramann sem rétti mér munnsprey og sagði "munnsprey" - búinn að læra þetta fína orð og kyssti mig svo og knúsaði eins og mesta krútt í heimi. Síðan vaknaði stórkostlega stóra systirin sem er ótrúlega dugleg og hjálpar mér mjög mikið núna og kom sér sjálf af stað. Hún kom fram af baðinu og sýndi mér að hún hafi burstað úr sér aðra tönn og var ánægð með tannleysið.

Hrafn ákvað að ganga niður alla stigana alveg sjálfur sem vakti hjá mér falsvon um að hann væri tilbúinn að labba í leikskólann í stað þess að sitja í vagni (ég vildi sleppa við að lyfta honum í eða taka hann úr vagninum). Hann var ekki tilbúinn til þess. Hann gekk að vísu alveg sjálfur en lagðist niður hjá pollum og blés í vatnið til að búa til bubblur. Honum fannst þetta mjög sniðugt og hlustaði lítið sem ekkert á mig sem útskýrði "ullabjakk, ekki gera þetta" en gat ekki lyft honum upp af jörðinni til að láta hann hætta þessu. Þ.a. þetta gerðist aftur og aftur á leiðinni en börnin náðu þó morgunmat í leikskólanum og ég var ánægð með það, kom við í bakaríinu og keypti tvö múslírúnstykki handa okkur hjónunum í morgunmat.

Ég lagði mig síðan í 4 klukkutíma og vaknaði við símtal frá bankanum; ég get endurfjármagnað húsnæðislánið og lækkað greiðslubyrðina, allt A lán, góðar fréttir. Ég hringdi líka í Domus og fékk tíma í sneiðmyndatöku 30. september og fannst þá pappírsvinnu dagsins lokið. Ég fór í sturtu og horfði á OC en gleymdi hádegismat og smurði mér því flatbrauð með osti og agúrku auk tebolla áður en ég sótti krakkana. Þau voru ánægð að sjá mig enda mætti ég snemma og kom þeim á óvart. Heimferðin gekk vel, við stoppuðum hjá færri pollum. Að vísu heimtaði Hrafn að ég héldi á sér hluta leiðarinnar, hann knúsaði fæturnar mínar þar til ég gaf undan og mér tókst að koma honum á háhest. Sem betur fer hitti ég nágrannakonu mína hjá stiganum heima því ég hafði ekki hugsað nógu langt fram í tímann til að finna hvernig barnið kæmist niður af háhestinum.

Þar sem tannálfurinn vildi mjúkan mat ákvað ég að skella í súpu, hún er mjög einföld og ég geri oft einhvers konar útgáfu af henni. Þarsem ég er að reyna að minnka bólgur ákvað ég að nota mjög mikið engifer og túrmerik og engan sykur eða mjólkurvöru.

Grænmetissúpa með kókos og túrmerik

Olía
Hálfur hvítlaukur (5-6 rif)
Stór biti af engifer (eins og tveir fingur)
Eitt búnt af vorlauk
Ein sæt kartafla (stór)
Ein krukka af kjúklingabaunum (skolaðar)
Ein dós af kókosmjólk
Vatn - 3 glös
Grænmetiskraftur  - 2 tsk

Krydd (auðvitað er þetta allt eftir smekk og má sleppa).
Túrmerik - slatti, súpan verður gul - ca. 1 msk
Kóríander - 1 tsk fræ, 3 tsk kryddið, eitt búnt lauf
Chillipipar - lítið - 1 tsk
Hvítur pipar - lítið - 1 tsk
Svartur pipar - 2 tsk
Garam Masala - 1 tsk
Kanill - 1 msk (Eyrún bað mig um að bæta þessu við því henni fannst súpan ógeðsleg áður)

Ég setti slatta af olíu í pottinn og steikti hvítlauk, engifer og vorlauk upp úr kryddblöndunni.
Ég skar sæta kartöflu í teninga og bætti við.
Þá hellti ég vatni yfir þ.a. kartaflan myndi sjóða.
Þegar suðan kom upp lækkaði ég hitann og bætti við grænmetiskraftinum og kjúklingabaununum.
Siðan fór kókosmjólkin út í.

Bragðmikil, góð og ódýr súpa.
Ef ég væri að elda fyrir fullorðna myndi ég bæta við 2-3 heilum chillium, geri það næst því börnin kunnu ekki að meta matinn (bar þeirra súpu reyndar fram með mjólk til að kæla og rúsínum).












   

























Eftir mat fórum við Sturla í leikhús og sáum Smán, mjög áhugavert leikrit sem ég mæli með.
Sturla var nógu elskulegur til að hjálpa mér að klæða mig í sokkabuxur svo ég gæti verið fín í leikhúsinu.

Það var aðeins of mikið álag fyrir mig að sitja í bíl og sitja svo heilt leikrit þ.a. ég tók verkjalyf og dreif mig í rúmið með tölvuna. Ég ætla að sofa í sokkabuxunum svo ég geti verið fín til fara á morgun en þessa vikuna hef ég verið klædd í hjólastuttbuxur, rúllukragabol og inniskó.



No comments: