Wednesday, February 08, 2006

Lengsta atvinnuviðtal sem sögur fara af...

Ég hef allavega ekki lesið um lengra atvinnuviðtal. Ykkur er frjálst að leiðrétta mig.
Fjórar klukkustundir. Fjórar klukkustundir. Ég beið eftir JóaB í fjórar klukkustundir í Hlíðarsmára þar sem hann sótti um vinnu. Aldrei ætla ég aftur með vini mínum í atvinnuviðtal. Þó þetta hafi ekki verið alslæmt. Kjörið tækifæri til að lesa sögu en ég er einmitt að fara í sögupróf. Ég smakkaði mjög gott te, London Fruit and Herbal te. Mæli sérstaklega með ferskjuteinu þó að hindberjate minni mig á Eddu og jarðaberja/vanillute á England. Te er áhugavert. Ég var alin upp í Englandi. Ég drakk þó líka einn og hálfan kaffibolla og magic. Þannig að mér leiddist ekkert.
Í fjóra klukkutíma.
Var reyndar í 20 mínútur í bíl manns sem hafði orðið rafmagnslaus og maðurinn þurfti að hafa hann í gangi. Hann bað mig um að sitja í bílnum og bíða eftir vini mínum ef ég gæti svo enginn myndi stela bílnum. Hann bað mig líka um að stela ekki bílnum. Ég sagði honum að ég hefði sérstaka unun af því að stela bílum og væri þarna að bíða eftir svona tækifæri. Þá bað hann mig um nafnið mitt.
Ég stal ekki bílnum, ég stal magicinu sem ég drakk. Það var miði þar sem starfsmenn krossuðu við hvað þeir drukku úr ísskápnum, mér datt í hug að bæta nafninu mínu á listann og rugla aðeins í þeim. Hætti samt við það. Ef ég sæki um vinnu hjá Hive vil ég ekki að þau muni eftir einhverju svona.
Síðustu daga hef ég spáð með móður minni, frekar mikið. Frekar skemmtilegt. Ég hlakka mikið til helgarinnar en Gunnar Baldvin bauð mér í matarboð. Við verðum 4 saman, Gunnar, Elín (kærastan hans), Arnór og ég. Við höfum öll verið skiptinemar þ.a. ég býst ekki við vandræðalegum þögnum. Hann býður líka uppá rauðvín. Annars má vel vera að við högum okkur eftir því sem stendur í Hávamálum og bæði tölum og drekkum í hófi. Mér finnst það samt ólíklegt.

No comments: