Friday, August 17, 2018

Bæklunarlæknir

Ég fór til bæklunarlæknis í gær sem skoðaði mig og komst að þeirri niðurstöðu að ég væri ekki laus í liðum og þyrfti ekki að fara í aðgerð á öxlinni (með fyrirvara um að mér ætti að batna alveg á 3-6 mánuðun og staðan verður tekin aftur ef ég dett alveg úr lið aftur eða held áfram að detta smá úr lið daglega).

Hann sagði að brotið væri ekkert áhyggjuefni og ég mætti sjálf setja öxlina aftur í lið með tilheyrandi brökum svo lengi sem ég dytti ekki á hana.

Svo benti hann mér á að drífa mig strax í sjúkraþjálfun. Ég pantaði tíma 22. ágúst sem er sama dag og skólasetning Eyrúnar. Ég trúi varla að hún sé að byrja í skóla, bráðum förum við í foreldraviðtal og kynnumst kennaranum hennar.

Ég ákvað að labba heim þegar ég missti af strætó í gær, dásamlegt veður, sól og blíða. Mikið er Elliðaárdalurinn yndislegur, sá tvo fossa, kanínur, gæsir, endur og kríur á leiðinni.






Friday, July 13, 2018

Meiddi mig

Nú hef ég vanist brjósklosinu.
Það var rétt hjá Guðnýju sjúkraþjálfara að það tæki ca. hálft ár að lagast.

Ég ákvað undir lokin að hætta að taka verkjalyf því ég var alltaf þreytt og fúnkeraði varla. Skoðaði þá aukaverkanirnar og öll lyfin ollu þreytu sem aukaverkun.

Mér er ennþá illt, mér líður eins og einhver haldi kveikjara að mjóbakinu öllum stundum, með misháa stillingu hverju sinni. Þeim sársauka hef ég þó vanist og hann hefur ekki áhrif á daglegt líf lengur (nema ég get hvorki vaskað upp né skúrað en ég græt það ekki).

Ég bað um tilvísun til sálfræðings því mér fannst ég orðin þunglynd. Hún sagði mér að skipta um vinnu og var ánægð að það væri komið í ferli. Þá fékk ég sertral lyf, kláraði einn pakka og líður nú eins og ég sjálf aftur. Fékk líka frábæra vinnu sem ég er sátt við.

Fyrir rúmri viku hljóp ég á eftir strætó og datt framfyrir mig. Þá fór ég ur axlarlið og bað Eddu um að koma og hjálpa mér á slysó. Ég sendi strætó burt og afþakkaði sjúkrabíl. Svo sat ég úti og hneykslaðist á fólkinu sem labbaði framhjá án þess að heilsa og þeim sem hægðu á bílunum, störðu á mig og keyrðu svo burt. Samt afþakkaði ég alla hjálp þeirra sem vildu veita hana.

Einn misþroska maður lét samt ekki segjast, "við getum ekki bara látið þif sitja hér í allan dag. Þú ættir að hringja í sjúkrabíl". Honum fannst þetta augljóslega eina vitið og beið með mér eftir Eddu. Ég var honum þakklát þó mér fyndisy vandræðalegt að siitja hjálparvana og hálfgrátandi úr sársauka á gangstéttinni að halda uppi samræðum.

Hann sagði mér sögu um þegar hann datt sjálfur í holu þartil Edda kom.

Þá föttuðum við hve mikil bjartsýni það var hjá mér að ég kæmist í bílinn hennar Eddu. Við áttum ekki séns á að koma mér á fætur þ.a. Edda hringdi a sjúkrabíl. Hún lýsti mér sem konu sem ég vildi mótmæla en ég hafði ekki orku til þess og er víst 31s árs.

Maðurinn kvaddi þegar hann hafði staðfest hvaða leið sjúkrabíllinn keyrði til okkar.

Þau hjálpuðu mér að komast í börur og skutluðu mér á Slysó, þau voru yndisleg og róleg, höfðu þægilega nærveru og kunnu vel til verka. Konan hrósaði mér fyrir að vera dugleg að anda í gegnum sársaukann. 

Hjúkrunarfræðingurinn sem tók við mér var sömuleiðis yndisleg sem og allir sem sinntu mér þarna.

Læknirinn var frábær, algjörlega framúrskarandi. Ég fékk semsagt mjög góða þjónustu. Fór tvisvar í röntgen. Eftir ca. tvo tíma kom í ljós að ég væri "ekki í neinum lið" og ég fékk loks verkjalyf (um svipað leyti og ég hélt það myndi líða yfir mig). Svo var eg sett í lið.

Edda var allan tímann hjá mér og yndisleg. Á mánudaginn fór ég síðan í sneiðmyndatöku og í dag komst ég að því að ég væri brotin.

Sprunga efst í beininu og í því sem það fer inn í og vökvi inn á lið ef ég skil þetta rétt. Læknirimn sagði að ég væri laus í liðum og "eðlilegt frávik".

Næsta skref verður að hitta bæklunarlækni, vonandi í næstu viku. Svo þarf ég líka að fara í sjúkraþjálfun. Er voða fegin að vera byrjuð í sumarfríi núna.



Tuesday, October 17, 2017

Gæti verið verra

Hvað þrá allar konur á öðrum degi blæðinga?
Barnasundnámskeið.

Stulli er í útlöndum þ.a. ég komst ekki undan.
Ég fór með Hrafni í gegn og hann var með smá niðurgang.

Perfect.

Allan sundtímann var ég smá stressuð að það yrði "slys" en á sama tíma dáðist ég að þessum fallegu, duglegu, sterku og skemmtilegu börnum mínum.

Svo fór ég í sturtu og reyndi að passa að enginn tæki eftir því að Rósa frænka væri í heimsókn.
Ég horfði í kringum mig á allar þessar konur, og skildi að ég ætti ekki að vera vandræðaleg, þær hefðu nú lent í öðru eins. M.a.s. allar mæður. Séð margt ógeðslegra.
Samt fannst mér þetta áfram sjúklega vandræðalegt.

Pabbi keyrði okkur heim og ég skellti pylsum í pottinn.
Ég hef aldrei eldað pylsur heima áður svo ég muni.
Vá hvað það er auðvelt.
Fengu allir mat á innan við 10 mínútum og Hrafn vann Hver er skítugastur? keppnina.
Hann borðaði líka tvær og hálfa pylsu og eitt pylsubrauð og drakk tvo pela, smá svangur eftir sundið.



Nágrannar mínir kíktu við til að mæla fataskápinn sem eg vil losna við.

Ég held og vona að það hafi aldrei verið svona mikið drasl heima hjá mér áður þ.a. þetta var líka vandræðalegt. Það sást að vísu í gólfið hér og þar en það gerði það eiginlega verra.
Eyrún notaði tækifærið til að fylla eitt pylsubrauð af tómatsósu og remúlaði og hljóp svo til okkar þ.a. það slettist út um alla íbúð, á gólf, skápa og veggi.
Akkúrat það sem vantaði!
En þeim var nákvæmlega sama og ætla að taka skápinn sem er æðislegt. Ég er búin að panta flamingo veggpappír fyrir svæðið.

Eftir mat hjálpuðu börnin mér að taka allt dót upp af gólfinu, Eyrún var ótrúlega hjálpsöm og við spiluðum Pál Óskar a meðan við tókum til. Nú er agætlega fínt og börnin fá koju á morgun.

Monday, October 16, 2017

Mánudagur - mæða og matur

Nú er ég búin að minnka við mig vinnu og verð í 50% starfshlutfalli. Þá kemst ég tvisvar í viku í sjúkraþjálfun og einu sinni í viku togtækið hjá sjúkraþjálfaranum sem togar mig örlítið í sundur. Það hljómar eins og pynting en er virkilega þægilegt. Ég ætla áfram einu sinni til tvisvar í mánuði í nudd hjá Guðbrandi og reyni að komast í jóga og sund líka. Ég á smá séns í þessu starfshlutfalli.

Ég hitti lækninn minn á föstudaginn og hann var ánægður að sjá svona mikinn mun á mér á þessum stutta tíma, sem betur fer eru allir sammála um að ég ætti að forðast aðgerð. Hann staðfesti að ég er með brjósklos í neðstu 2 hryggjarliðunum og lét mig fá afrit af textanum úr myndatökunni - ég skildi enga heila setningu því þetta var allt á latínu. Hann fullvissaði mig um að þetta væri bara brjósklos, engin ástæða til að athuga neitt annað og ólíklegt að ég sé með gigt. Honum fannst þetta vera skólabókardæmi um brjósklos og ég er fegin því. Hann sagði mér að halda áfram að taka verkjalyf meðan ég þyrfti þau til að halda mér á hreyfingu og koma aftur eftir mánuð til að taka stöðuna í sambandi við starfshlutfallið. Við vonum að þetta gangi til baka a 3 mánuðum. 

Í morgun fór ég í sjúkraþjálfun og komst óvænt í tog í leiðinni og þetta breytti deginum, mér leið svo mikið betur eftir tímann. Svo fór ég í vinnuna.

Eftir vinnu ákvað ég að hafa einfaldan mat því það er jú mánudagur og börnin verða snemma svöng og þreytt og þar af leiðandi erfið. Ég keypti mér tilbúið pítsadeig og lét senda það heim frá Netto um helgina ásamt öllu öðru sem ég ætlaði að borða þessa viku sem Sturla er í Nice. Það hef ég aldrei gert áður enda sýndi það sig í dag þegar ég tók deig úr frystinum sem ég átti víst að geyma í kæli. Korter í sex var deigið í köldu vatnsbaði sem ég vonaði innilega að myndi afþíða það á fimm mínútum.



Það gekk ekki þ.a. í staðinn prófaði ég eitt sem ég hafði lesið um á netinu. Tortilla-pítsur.
Það var ÆÐISLEGA GAMAN að búa þær til með börnunum. 

Eyrún náði að sýna listræna hæfileika sína þegar hún sprautaði tómatsósu á fyrstu tortilla-kökuna.
Svo þurfti hún að drepa kallinn.





Þau settu allt áleggið á pítsurnar.
Mér fannst frábært að þau héldu að snakk væri álegg.





Meðan við biðum eftir að fyrsta "pítsan" bakaðist voru þau of upptekin við að setja á næstu til að kvarta yfir svengd. 




Þau lögðu á borð - þau eru orðin vön því og ég þarf ekki að taka fram að ég geti ekki beygt mig lengur.




Svo borðuðum við saman, ótrúlega auðvelt, rosalega gaman.
Tómatsósa er samt fáranlega sæt og ég myndi ekki nota hana nema ég væri að elda fyrir börn - sjálf myndi ég vilja sýrðan rjóma frekar.






Svo fengu allir skyr með rjóma í eftirrétt.





Setti börnin í bað, þurfti sex handklæði til að þurrka gólfið.
Gaf þeim pakka (ég er svo mikill sökker, kenni mömmu um). 
Horfði á tónlistarmyndbönd og litaði með þeim.
Krúttin mín sofnuðu saman, sátt og sæt.



Þá var pítsadeigið tilbúið og ég skellti í eina pítsu sem var miðnætursnarlið mitt og verður nesti á morgun. Ég setti allt sem börn fíla ekki á hana; brokkollí, lauk, ananas, gráðost, chili og oregano. Hún er ágæt en frekar bragðlaus, hefði viljað hafa almennilega sósu (notaði sýrðan rjóma) og betra deig.


Stórtíðindi dagsins eru að Birta Bjartur Blær, útskriftarmyndin hans Sturlu, verður sýnd á Curta Cinema í Rio de Janeiro en það er fyrsta A-hátíðin sem hún kemst á. Sturla er núna á kvikmyndahátíð í Nice og á leið til Berlínar bráðum og vonandi kemst hann líka til Brasilíu.

Sunday, September 24, 2017

Sunnudagssæla

Börnin mín vöktu mig ekki fyrr en hálfníu sem er óvenju seint og Hrafn fór líka sjálfur fram og fann sér banana þ.a. dagurinn byrjaði þægilega. Þau voru svo óendanlega sæt og róleg. Mér var ekkert svo illt og prófaði að taka bara ibufen og paratabs en það dugði ekki út daginn þ.a. ég skipti aftur yfir í parkódín seinni partinn.

Mér var mjög óglatt í morgun og það eina sem mér dettur í hug að valdi því er að í gær borðaði ég mjög mikinn sykur, sérstaklega miðað við mataræðið sem ég hef tileinkað mér undanfarið. Ég fór í barnaafmæli og fékk mér tvær sneiðar af köku þar, svo hafði ég rauðvín með matnum og svaka eftirrétt: Rjómaís með marssósu, bananabitum og þeyttum rjóma - og ég fékk mér tvær skálar af honum líka.

Morgunmaturinn var afgangur af kvöldverði gærdagsins - grænmetisbollur og smælki. Mjög gott að byrja daginn svona.





















Brunch á Borðinu, Ægissíðu, pizan er mjög þunn sem er skemmtilegt og gott kaffi. Hugsa að ég fái mér næst bara kaffi og kanilsnúð. Félagsskapurinn var samt betri en veitingarnar enda var ég með frænkum mínum sem eru stórskemmtilegar.













Við kíktum svo í smá heimsókn á Seltjarnarnes, þar var boðið upp á ávexti og pinkulitlar jarðaberjamuffins og Mía litla fór á kostum.

Kvöldmaturinn gleymdist eiginlega hjá mér en ég fór með Eddu og Beggu í bíó að sjá The Square sem er rosalega góð mynd sem lætur mann hugsa og pæla í samfélaginu. Við Edda deildum poppi, svo borðaði ég súkkulaði sem ég fann í bílnum líka. Núna ætla ég að ljúka deginum í rólegheitum með kirsuberjaskyri frá Örnu.




Saturday, September 23, 2017

Góðir vinir eru allt

Það segir mamma mína allavegana.

Ég er nú nokkuð sammála henni hvað það varðar.

Annars leið mér miklu betur í morgun, ótrúlegur munur - hvíldin, sundið, bólgueyðandi lyfin - allt saman eða eitthvað af þessu virkar. Svo held ég að það hjálpi líka að gera aðeins eitt heimilisstarf á viku.

Mér leið allavega nógu vel til að taka ekki verkjalyf um leið og ég vaknaði, heldur beið ég framyfir morgunmat. Svo gladdi það mig mjög að ég er ekki lengur með náladofa niður allan vinstri fótlegginn heldur aðeins í tánum og smá undir ilinni, ég er með svakalegar harðsperrur í kálfinum og lærinu en að öðru leyti góð. Ég gat setið á hnjánum og skipt á Hrafni þó mig hafi svimað aðeins við að gera það, dagurinn byrjaði semsagt mjög vel.

Svo fór ég með Eyrúnu í ballet og vorum samferða Urði vinkonu hennar, þær skottur eru nú óendanlega sætar saman í þessum bleiku balletbúningum. Hrafn var góður að fara niður stigann en sparkaði stígvélinu af sér á leiðinni og ég þurfti að ganga tilbaka og leita að því, annars var hann nú yndislegur í vagninum.

Eftir ballet fórum við í barnaafmæli hjá Rúrik frænda sem var mjög skemmtilegt, flott veisla, góðir gestir, skemmtilegt afmælisbarn og allir í góðu skapi. Ég gleymdi að taka verkjalyf áður en ég fór af stað og fann að ég réði verr við stress fyrir vikið, skammaðist í Eyrúnu þegar við vorum að bíða eftir strætó og var örg um leið og mér varð illt. Hún tók það samt ekki nærri sér sem betur fer.

Við Sturla vorum löngu búin að bjóða Jóa og Stefaníu í mat en ég treysti mér ekki til að elda og halda alvöru matarboð ein þ.a. ég bauð þeim að koma klukkan fimm og elda saman. Þau tóku vel í það enda yndislegir vinir og Jói eldaði flókna réttinn og ég þann einfalda meðan Stefanía og Sturla sinntu börnunum. Ég mæli eindregið með því að bjóða fólki í svona matarboð sem það sér um, þau gengu meira að segja frá eftir matinn.

Við prófuðum tvær týpur af grænmetisbollum, báðar hefðu mátt vera saltari og þessar indversku kryddaðri. Ég setti kartöflumjöl út í hinar og þær urðu undarlegar, harðar að utan en seigar að innan.

Grænmetisbollur:
https://kruderiogkjanabangsar.wordpress.com/2015/08/17/graenmetisbollur-med-olivu-og-basilmauki/

Indverskar grænmetisbollur:
http://www.dv.is/lifsstill/2013/8/19/langar-til-ad-breyta-matarmenningu-islendinga-QZNZCB/




Þetta var samt frábært matarboð og við spiluðum eftir matinn. Ég reyndi að taka myndir af hópnum en hann myndast misvel, í raunheimi eru þau þó öll saman mjög sæt og frábær félagsskapur.







It's Friday Baby!

Mér finnst föstudagar alltaf skemmtilegir, jafnvel þegar ég hef verið heima alla vikuna.

Börnin voru mjög góð í morgun, ég var svo lengi að koma fér framúr (vegna leti, ekki verkja) að þau borðuðu morgunmat heima. Svo lögðum við af stað, Hrafn renndi sér niður stigana og klifraði upp í vagn sem Eyrún hafði haft til fyrir hann og Eyrún opnaði hurðina og beið eftir okkur.




























Þegar börnin voru komin í leikskólann fór ég heim að fá mér morgunmat. Tvær sneiðar af Knudsen súrdeigs-rúgbrauði með smjöri og osti, harðsoðið egg, mömdlur og rúsínur og Örnu jógúrt með stórum kókosflögum.

Ég talaði við VR og Tryggingarnar til að sjá hvaða réttindi ég hef varðandi launalækkun þegar ég minnka við mig. VR heldur laununum í 80% í 9 mánuði. Tryggingarnar bjóða ekkert nema það sé alvarlegur sjúkdómur eða slys. Annars er ég með mjög fínar tryggingar miðað við minn aldur samkvæmt tappanum sem ég talaði við.

Svo horfði ég á OC þar til Sturla vaknaði (hann er á næturvöktum). Við fórum svo í deit í Mjóddina (classic!), tælenski staðurinn varð fyrir valinu þrátt fyrir tilboð á Subway. Tom ka kai súpa er í miklu uppáhaldi hjá mér þ.a. ég fékk mér slíka súpu en borðaði aðeins hálfan skammt af hrísgrjónum.





















Össur hefur nokkrum sinnum minnst á að það hjálpi ekki mikið við bakverkjum að liggja í rúminu þ.a. ég hef reynt að ganga svolítið síðustu daga og nú fórum við hjónin í sund. Fyrst vorum við mjög lengi í nuddpottinum, ráð frá Braga svila mínum, svo synti ég nokkrar ferðir í skriðsundi. Það var æðislegt, í vatni get ég hreyft mig og þó ég syndi hægt þá get ég gert allar hreyfingarnar. Mér finnst íslenskar sundlaugar frábærar og sakna þeirra þegar ég er erlendis. Þegar mér var orðið kalt í sundlauginni skelltum við okkur í heitasta pottinn, svo kalda sturtu og sauna og loks kalda sturtu. Þvílíkir munur! Eftir sundferðina leið mér mikið betur og gat tekið stærri skref. Við sóttum börnin okkar og fórum til tengdó í mat.

Þar var lambasteik og heljarinnar veisla, gulrætur, baunir og kartöflur úr garðinum. Baunirnar og gulræturnar voru bornar fram hráar, þær voru dísætar og afskaplega bragðgóðar. Svo var maís og sveppasósa. Ég eldaði semsagt ekki neitt í dag en borðaði þó vel.






















Thursday, September 21, 2017

Eldað með listakonu

Mér líður enn of aftur betur í dag en í gær, þó ekki svo vel að ég treysti mér út úr húsi án verkjalyfa - en það hlýtur að koma að því.

Allt gekk vel í morgun, Hrafn vakti mig með kossi og Eyrún kom og knúsaði mig þ.a. ég var í hálfgerðri sæluvímu í byrjun dags, Eyrún sá um sig sjálf og var tilbúin á undan mér, Hrafn gekk niður tvær hæðir og pomsaði niður tvær og klifraði svo upp í vagninn sem Eyrún hafði fundið til fyrir hann. Ég rúllaði honum því í leikskólann og Eyrún hljóp samferða okkur og sýndi mér hvað hún gæti tekið stór skref, lítil skref og stokkið yfir polla.

Þegar ég kom heim fékk ég mér hafragraut með kókos, kanil og rúsínum, örlitlu salti og smá mjólk. Skolaði því niður með te og nartaði í carrs kex með osti. Nartaði þýðir samt að ég hafi borðað 5 kex.

Ég kíkti í heimsókn til Sigrúnar og Eddu og fékk þar einn risastóran kanilsnúð með latté.














Átti góða stund með þeim mæðgum og við ákváðum að elda saman stir-fry í hádeginu. Stir fry er alltaf skemmtilegt því þú grípur það grænmeti sem er til, steikir það með smá soja sósu og voilá - það er tilbúið. Ef Edda væri ekki í mat myndi ég bæta við 2 heilum chillium (helst rauðum) og chilliolíu.

Kínverskt stir-fry með núðlum og eggjum 

Olía
Hvítvínsedik - 2-3 msk
Soja sósa - eftir smekk
Sítrónusafi - 1 tsk (eða kreista 1/3 af sítrónu út í)
Hunang - "Dass"

Hvítlaukur, 3-4 rif
Engifer, 3 msk
Einn laukur (gulur)

Hálfur poki af frosnu wok grænmeti
Ein rauð papríka (því listakonan vildi hafa meiri litadýrð)
Hálfur poki af spínati
Einn lítill blómkálshaus
4 egg (set alltaf einu fleira en fólkið)
Lítill poki af kasjúhnetum

2 pakkar af instant núðlum (annar var með kjúklingabragði, hinn sveppabragði).

Fyrst suðum við instant núðlurnar með bragðefninu í pakkanum og létum standa.
Svo settum við olíu í wok pönnu og steiktum hvítlauk, engifer og lauk á miðlungshita þartil lyktin varð góð. Þá helltum við ediki og sojasósu yfir og bættum svo wok grænmetinu út í, smám saman skárum við niður hitt grænmetið og bættum út í. Þá héldum við áfram að hella ediki, soja sósu, sítrónusafa og hunangi yfir og pössuðum að setja lítið í einu og láta magnið ráðast af lyktinni.
Næst gerðum við gat í grænmetið í miðja pönnu og steiktum eggin þar, þetta var erfiðasta skrefið því hvorug okkar er þolinmóð en egg verða að fá smá tíma til að eldast. Þá hrærðum við þessu saman, sigtuðum núðlurnar frá vatninu og hrærðum þeim út í og bættum loks kasjúhnetunum við og slökktum undir. Rosalega auðveld uppskrift, hefðum auðveldlega getað verið sex að borða saman. Gaman að sjá Eddu elda þetta og skemmtileg stund.


























Stulli sá svo um kvöldmatinn sem var mjög góður - kjúklingaleggir með indversku kryddunum, tamari sósu og sesamfræjum + Jamaican style sætkartöflu-og-kartöfluréttur með kókos og rúsínum + Sýrð rjómasósa sem var eins og kokkteilsósa með sweetchili. Myndin týndist því miður en þetta var bæði gott og girnilegt.