Wednesday, December 10, 2008

Jólafílingur

Bráðum koma blessuð jólin, börnin fara að hlakka til.
Reyndar hlakkar mamma mín alltaf meira til en nokkurt barn sem ég þekki og ég hlakka líka til, hlakka til að koma heim og fagna jólum! :)
Skemmtileg tilviljun - ég kenndi ensku í menntaskóla í Lin Yi sem er hvorki frægur né áhugaverður staður, mjög afskekktur.... og móðir og systir eins kínverskukennara hér í Le Havre (sem kennir mér) lærðu í þessum menntaskóla!
Þið sem hélduð að "lítill heimur" ætti bara við um Ísland... !

Saturday, October 18, 2008

Sæl og glöð

Hér er mjög skemmtilegt að vera, mér var boðið í tvö matarboð á fimmtudaginn og valdi það sem mér fannst hljóma meira spennandi, kóreskur matur. Sá alls ekki eftir því, þvílíkur unaður! Steven eldaði í svona fjóra klukkutíma og þegar hann kláraði einn rétt borðuðum við hann, meðan hann útbjó næsta var hann með fingerfood. Þetta var svo ótrúlega góður matur að ég er búin að biðja hann sérstaklega að bjóða mér aftur ásamt Stulla þegar hann veður hjá mér í nóvember því þessu er varla hægt að lýsa. Því miður kann ég engin nöfn á réttunum en þeir voru mjög kryddaðir og rosalega góðir, skemmtilegir og frumlegir frá mér séð. Ég er yfir mig hrifin. Hann sýndi mér hvernig hann eldaði það sem hann gerði þetta kvöld og hefur lofað að kenna mér líka að gera kóreskar pönnukökur "from scratch" og ég hlakka svo til. Sem dæmi um rétt var steikt svínakjöt sem maður dýfir í mjög sterka sósu sem er um leið svolítið bitur og með því tekur maður hrá græn chilli og dýfir í sósuna og borðar. Annað var einhverskonar sterkfiskisúpa sem maður hellir yfir hrísgrjón og borðar og sashimi (reyndar ekki kóreskt) og hinu get ég ekki lýst því ég kann ekki orðin en vá, þetta var gott!

Í gær var svo almennilegt djamm með viðeigandi partíum og klúbbastuði, vorum mörg úr skólanum og skólastjórinn mætti sjálfur ásamt eiginkonu sinni sem kennir mér frönsku. Þau dönsuðu svo með okkur og voru kammó. Ég rölti heim og þá voru einhverjir strákar sem fylgdu mér því það er víst hættulegt að ganga ein heim um nótt hérna. Mér líður alls ekki þannig. Svo æfi ég líka franskt box eins og ég útskýrði fyrir manni sem hafði áhyggjur af því að ég væri ein á röltinu. Héðan í frá fer ég samferða fólki heim til að valda ekki íbúum Le Havre hugarangri og áhyggjum.

Fann kínverska búð nálægt heimilinu mínu sem selur mat frá allri Asíu, yndislegt! Nú get ég eldað allt sem mér finnst auðvelt og skemmtilegt að elda, hráefni sem ég fann aldrei á Íslandi og eigandinn er Kínverji sem er líka skemmtilegt. Fór á markaðinn í dag og keypti mér grænmeti, þar á meðal ólífur sem ég held að komi beint frá Afríku, ótrúlega góðar.

Thursday, October 09, 2008

Frakkland, upplifanir

Ég hef orðið vitni að tveimur almennilegum mótmælum með skrúðgöngum og látum. Síðan hef ég fylgst með fólki borða croque monsieur, ganga um með franska hatta, borða osta "rétt" (og mér er boðið í osta-og-rauðvínskvöld með Frökkum), allt lokað í hádeginu (sérstaklega mikilvægar skrifstofur eða pósthúsið þegar starfsfólkið er ekki í verkfalli), fólk sem notar gemsann sinn sem hátalara meðan það gengur um borgina, skriffinnsku helvítis, menn sem ganga um með baguette og halda að þeir hafi fundið stóru ást lífsins, strákar sem strauja gallabuxurnar sínar, fólk sem fer út að ganga með hundana sína og öskrar á þá allan göngutúrinn og dettur ekki í hug að þrífa upp skítinn, ekta franskan hreim, Frakka sem neita að tala ensku og er byrjuð að kyssa stráka á báðar kinnar þegar ég hitti þá. Þetta er mjög skemmtilegt líf.

Skólinn er líka skemmtilegur eða réttara sagt virkilega áhugaverður og nemendurnir eru álíka hrifnir af orðabókum og sögu tungumála og ég auk þess sem þeim finnst spennandi að kaupa stílabækur, námsbækur og penna. Algjörir nördar. Sem fylgjast vel með og margir hafa spurt mig út í meint gjaldþrot Íslands með spurningum á borð við "hver er þjóðarframleiðsla ykkar nákvæmlega?" "Hvernig tókst ykkur þetta eiginlega?" og búast við ítarlegum og gáfulegum svörum frekar en táraflóði. Ég veiti þeim hvorugt. Mér finnst samt skemmtilegast hérna að þetta er orðið eins og kommúna, maður gengur á milli og fær hvað sem vantar lánað, alltaf stórir hópar að borða saman hér og þar og allir velkomnir og almennt mjög góð stemning í húsinu.

Kúrsarnir mínir eru:

Politics and Societies of North East Asia. (Lærum hvað samfélag er, hvaða reglur gilda og hversvegna, hvers vegna fólki finnst það tilheyra hópi eða samfélagi, hvernig ákvarðanir eru teknar o.fl. o.fl. Lesum fréttir og setjum í sögulegt samhengi, berum ávallt saman þjóðir Kóreu, Japan, Mongolíu og Kína; skoðum aðeins Norður-Kóreu).

Franska, skemmtilegt og einn daginn mun ég þora að tjá mig á þessu tungumáli. Læt ykkur vita.

Kínverska, segir sig sjálft.

Chinese calligraphy, læra að skrifa svona flott dæmi sem þið getið síðan hengt upp á vegg, er að bíða eftir fyrsta tímanum.

Lögfræði með áherslu á frönsk lög og alþjóðalög, hvað gerist þegar þau stangast á og lærum að setja mál okkar fram á réttan hátt ef við viljum að franskir lögfræðingar virði okkur viðlits.

Saga, saga frá upphafi tíma fram á 18. öld á hálfu ári og þau virðast ekki ætla að sleppa neinu. Taka fyrir helstu heimspekinga, leiðtoga og uppfinningamenn Evrópu og Asíu, bera saman í tímaröð og fjalla virkilega ítarlega um allt. Ég skil ekkert í þessum kúrsi þar sem þetta var versta fagið mitt áður fyrr og í hverjum tíma eru milljón ný nöfn, þúsund ný ártöl og oftast einhver kort sem við eigum að kunna utanað (og áttum að kunna áður en við komum).

Microeconomics, hér er mikill hluti námsefnisins að lesa The Economist, Financial Times og Wall Street journal og við fjöllum um hvað er að gerast, hvers vegna og hvernig hefði verið hægt að koma í veg fyrir það. Um leið og basic hagfræði. Svolítið óþægilegt að hafa aldrei lært hagfræði áður þegar fólkið sem er með manni í tímum útskrifaðist af hagfræðibrautum og eitthvað bull.

Quantitative methods, stærðfræði hagfræðinnar. Hélt að þetta yrði auðvelt fyrir mig sem útskrifaðist af náttúrufræðibraut en í fyrsta tímanum reiknuðum við dæmi úr fjórum stærðfræðiáföngum og ég fékk óskiljanlega löngun til að sjá vasareikninn minn aftur. Ekki bara tölfræði.

Great Political Writers. Þetta er valfag og við ráðum þessu svolítið sjálf, ég á að finna mér eitthvað efni tengt stjórnmálum og ræða það síðan með tilvísunum í einhverja merkilega rithöfunda, þið megið endilega koma með uppástungur. Heimildir mega vera á öllum tungumálum. Þetta má líka vera merkilegur pólitískur atburður (sbr. stofnun Alþingis) og afleiðingar eða hrein heimspeki um hvað stjórnmál eiga að gera.

Boxe Francais, held mér veiti ekki af smá hreyfingu og þetta virðist vera svipað og kickboxing þannig að ég er spennt. Búin að redda læknisvottorðinu sem var nauðsynlegt til að mega skrá mig í leikfimi.

Team Project, þetta er áfangi en við ráðum hvað við gerum og ég ætla, aldrei þessu vant, að gera árbók. Mikil vinna en fólkið sem hefur beðið um að vera í hópnum er mjög vant, hæfileikaríkt og greinilega tilbúið að leggja á sig heilmikla vinnu þannig að ég verð ekki ein í þessu. Þurfum að redda styrkjum og prentun og öllu svona sjálf.

Síðan ætla ég að vera í English debating society og vonandi keppa í ræðumennsku, English parliamentary style. Skólinn borgar þá undir mann farið til hvaða lands sem keppnirnar eru en þær eru t.d. Model EU og að ég held Model UN. Skólar sem keppa á móti okkur eru m.a. Cambridge, Oxford og Ivy League skólar Ameríku, við erum ekki með alvöru þjálfara og frekar chillað viðhorf sem lýsir sér þannig að ef maður vill og hefur tíma til að fara þá má maður það svo lengi sem það er ekki búið að fylla öll plássin.

And that´s it.

Sunday, September 28, 2008

Sciences Po

Allt er æðislegt hérna, skólinn að vísu ekki byrjaður en mér líkar rosalega vel við samnemendur mína og við erum búin að fara til Parísar og Rouen saman. Skólinn byrjar samkvæmt stundaskrá á morgun en tungumálin (kínverska og franska) viku síðar. Það er mjög góð stemning í húsinu mínu en við erum mörg sem búum hérna og ég held ég hafi aldrei borðað kvöldverð ein síðan ég hitti hitt fólkið, erum líka samferða í skólann og erum búin að halda nokkur partí. Stundaskráin virðist algjört helvíti (átta til átta) en mér líður vel og hlakka svakalega til að byrja, búin að eignast nokkra vini sem ég veit að verða góðir vinir mínir og allt er frábært!!!

Sunday, September 21, 2008

Matur

Eldhúsið mitt er loks fullt af kryddum og skemmtilegheitum sem ég get gripið til þegar ég verð svöng, verð samt að passa mig svolítið þegar ég elda. Núna var ég t.d. að hugsa til Stulla og hann er mjög hrifinn af sterkum mat. Ég greip náttúrulega grænt chilli og sterka kínverska sósu og blandaði út í grænmetis-kartöfluréttinn minn í ágætis magni. Úrkoman er mjög góð þó það leki hor eftir tvo bita og líklega tár aftir þrjá....

Friday, September 19, 2008

Kicking

París var stórskemmtileg, verslaði smá, borðaði brauð og drakk mikið rauðvín. Eftir að Edda stakk af til Spánar fór ég smá túr með stúlkum sem eru háskólamenntaðar, önnur í fine arts og hin er landslagsarkitekt. Við fórum í Sacre Coeur, Montmartre og Dalí safnið, sem var frábært. Síðan spáði ég fyrir þeim í Dalí-tarrot spilin mín og hélt heim á leið.

Ég keypti mér sæng í dag, hlakka strax til að sofa undir henni frekar en klædd í fjölda sokka og ullarflíkur heimilisins. Þegar ég fór út að leita mér að sæng fylgdi ég reglu minni um að ganga alltaf í þá átt sem mig langaði frekar en reyna að skoða kort eða spyrja mikið til vegar. Þegar ég kom að búð sem seldi indjánavörur og leðurtöskur ákvað ég að athuga hvort búðarmenn vissu hvar mætti kaupa sæng eða teppi. Annar þeirra sagði mér að það væri í miðbænum sem er 1-2 km í “þessa” átt. Hann horfði augnablik á ringlaða svip minn og bauðst svo til að keyra mig á mótorhjólinu sínu, ef ég þyrði. Ég hef ekki farið á mótorhjól síðan ég lenti í slysi á Tælandi með Dominic en það var ekki svona ekta ekta leðurfatamótorhjól. Freistingin var of mikil og við vorum mjög fljót á leið þangað, fljót að finna sængina og fljót til baka. Þaut í gegnum hluta Le Havre og líkaði vel það sem ég sá, fannst líka spennandi að taka fram úr bílum og skemmtilegt að vera á mótorhjóli með einhverjum sem kunni að keyra það. Síðan fékk ég mér kebabsamloku þar sem franskarnar eru með kjötinu á milli brauðsins, samlokan var á stærð við hausinn minn og mér tókst ekki að klára hana þó ég hafi gert heiðarlega tilraun til þess. Keypti mér líka krydd og brauð. Þetta er að verða heimili.
Myndir af stúdíóíbúðinni minni (þær vilja ekki vera í réttri röð):






Thursday, September 18, 2008

Frakkland!

Ég er komin til Frakklands og Edda hefur yfirgefið mig. Hún er væntanlega komin langleiðina til Spánar núna.

Í Le Havre var einstaklega vel tekið á móti okkur, Atte (nemandi úr skólanum mínum) sótti okkur á lestarstöðina, hjálpaði okkur að halda á töskunum, hleypti okkur inn í íbúðina og bauð okkur að koma og borða kvöldverð með nokkrum eldri nemendum það kvöld. Komst að því að minn árgangur er annar árgangurinn í þessum skóla, við erum 60, árgangurinn á undan var aðeins 40 manna árgangur þannig að núna verða ekki nema 100 nemendur í skólanum!

Íbúðin mín er æðisleg. Hún er líka lillablá á litinn og miklu stærri en ég bjóst við, gæti ekki verið ánægðari með hana. Hendi inn myndum þegar ég er búin að kaupa aðeins meira dót í hana. Rúm fylgdi með sem og hillur, skrifborð, eldhúsborð og stólar sem er frábært. Mér líkar vel við borgina Le Havre en þar búa 300,000 manns og enginn stressar sig á neinu, allt er virkilega rólegt.

Núna er ég í París að bíða eftir stúlkum á hostelinu sem við Edda vorum á. Ég ætla með þeim að skoða Dalí safnið og síðan verð ég líka að kaupa flísteppi meðan ég bíð eftir sæng í pósti frá foreldrum mínum. Í París stara allir á skóna mína, ég held að gylltir skór séu kannski ekki í tísku lengur... Lestarferðin til Parísar er mjög þægileg, ég svaf alla leiðina eða í tvær klukkustundir. Alla sem langar að heimsækja mig er hér með boðið í heimsókn með fyrirvara um að þeir gætu þurft að kaupa sér dýnu til að sofa á eftir því hve fátækur námsmaður ég verð hérna.
Ég er ekki komin með síma en heimilisfangið er:

Kamma Thordarson, # 316
29 Rue Labédoyére
76600. Le Havre
France

Monday, September 01, 2008

Minnti mig á mömmu

Cyanide and Happiness, a daily webcomic
Cyanide & Happiness @ Explosm.net

I dag eru tvær vikur þangað til eg fer til Frakklands að læra Europe-Asia undergraduate studies. Eg er buin að fa almanak, lista yfir kursa og dæmi um iþrottir sem skolinn minn byður upp a kennslu i. Eg er orðin mjög spennt, m.a.s. yfir iþrottunum og byrjaði i dag að rifja upp frönsku.

A laugardaginn for eg i otrulega skemmtilega brúðkaupsveislu hja Ola og Mariu, þvílíkt djamm. Brjúðhjónin héldu eftirpartí heima hjá sér eftir góðan mat, nokkrar ræður, dans og mikið áfengi í Þróttarheimilinu. Skemmti mér konunglega. Talaði líka við Kínverja að beiðni Stulla og foreldra minna. "Sjáðu Kamma, þarna er Kínverji." - "Ég fann vin handa þér, hann er Kínverji" - "Þú verður nú að tala við Kínverjann". Fólk getur verið svo sniðugt. Þegar það reynir.

Friday, August 08, 2008

Well it ain´t no use to sit and wonder why babe, even you don´t know by now

Hér sit ég heima á Háaleitisbraut og bíð eftir Stulla. Frídagurinn virðist koma í veg fyrir hugmyndir mínar um rómantískan hádegisverð þar sem hann er enn að tína rusl eða sparka í ruslatunnur og heima sit ég. Auk þess hef ég ekki nennt að fara út í búð og kaupa í þennan hádegisverð sem ég hafði þvílíkar væntingar til. Það tók svo á að vera á Austurlandi með foreldrum mínum og frænkum og fósturfjölskyldu. Sundferðin og nóttin hjá borholu 18 í Kröflu, svona lagað tekur á. Einnig dagsferð um fallega firði með stoppi í coke sjálfsala. Erfitt lif. Mikil fegurð, svakaleg afslöppun og mér tókst að byrja að læra. Gengur erfiðlega að halda því áfram því ég er alveg stillt inn á frí gírinn. Gott að vera komin aftur í bæinn, skrýtið að hugsa til þess að ég þarf varla að vakna á morgnana frekar en ég vil og stressandi að eiga enn eftir að kaupa flug til Frakklands.
Borðaði indverskan mat í gær og ákvað að spreyta mig við að elda kóreskan við fyrsta tækifæri.

Sunday, July 13, 2008

Why trust you? You never made a dream come true!

Ég sit heima hjá foreldrum mínum og horfi á sjónvarp, við áttum mjög ánægjulegan dag og þá sérstaklega kvöldverð (önd með rommsósu). Nú færist alvara í leikinn með Le Havre, ég hamast við að fá námslán og reyni að velja mér húsnæði. Ég bíð eftir Stulla sem kemur heim af eistnahátíð á Austurlandi í kvöld eða nótt. Ham og læti, hann er himinlifandi. Í ágúst ætla ég að vera dagvinnulaus, mun eyða dögum mínum í lærdóm og barnapössun ef einhverjir fallegir eiga góð börn sem þau vilja losna við. Þá fer ég líka í sumarbústað með foreldrum mínum og öllum vinum þeirra. Þannig verður verslunarmannahelgin mín. Segið svo að ég sé ekki kúl!

Thursday, July 03, 2008

Vinna vinna vinna

Ég vinn mikið, er í 3 vinnum.

Dagvinnan er flokkstjóri hjá Bæjarvinnunni. Þar sé ég til þess að Fjölskyldu- og Húsdýragarðurinn hverfi. Ég er með frábæran hóp, þvílíkar gellur og skemmtilegar þar að auki. Fasta starfsfólkið þar er einnig skemmtilegt, Samlokugaurinn er vinsæll og bróðir hans, Maðurinn, einnig. Þeir virðast vinna við að keyra um á litlum bílum í leit að gellum.

Kvöldvinnan er úthringingar hjá Hagstofu Íslands. Fólk kann svo vel að meta þá vinnu. Eilíf gleði fylgir því að hringja í fólk og spyrja það spjörunum úr. Ég fæ líka að velja fólkið sjálf og veit því hverjir vilja taka þátt og hvenær þeir hafa tíma aflögu.

Næturvinnan er barþjónn á Apótekinu. Best skipulagði bar sem ég hef komið inn á og æðisleg vinnuaðstaða. Þar eru sléttujárn á kvenmannsklósettinu. Djamma sjaldan þar og vinir mínir komast ekki inn vegna dresscode þ.a. ég lendi sjaldan i því að fólk krefjist afsláttar. Nema "því þú ert svo falleg og lífið er yndislegt og ég ætla að bjóða þér í partí" töffurum. Mér finnst fólk sem drekkur vodka og burn um miðja nótt og kelar svo fram eftir aldri kúl. Megakúl.

Síðan á ég vini sem komu og fögnuðu afmæli mínu með mér þegar það átti við í virkilega skemmtilegu partíi. Tveir túristar voru þar á meðal, Daisy og Dominic. Ég var í fríi með þeim og var þá mun þreyttari en nokkurn tíma í vinnunni. Sætt samt að koma. Sem betur fer var Stulli einn heima rétt eftir dvöl þeirra og ég var því í mikilli afslöppun og kynnti mér myndir sem Kevin Smith leikstýrði. Yndislegt.

Friday, May 02, 2008

Ísland

Ég er komin heim!

Komin með vinnur, byrjuð að hitta vinina og í gær sá ég norðurljósin. Ísland er brjálæðislega fallegur staður. Ég varð að hætta göngu minni og stóð opinmynnt starandi upp í himinninn. Stundum skilur maður hvers vegna fólk dreymir um að koma til Íslands alla ævi og talar um norðurljósin eins og töfra. Sérstaklega þegar þau dansa og skipta um lit, fara úr fjólubláu yfir í grænt og hvítt á milli... þessu er ekki hægt að lýsa en vá. Vá vá vá hvað það er brjálæðislega fallegt hérna.

Sunday, April 20, 2008

Importante

Þessa dagana tek ég eftir fötum fólks, ég horfi niður og á einum fermetra sé ég adidas, nike, reebok, converse, prada, gucci, le saunda og merkjalausa skó. Þvílíkt úrval. Allir virðast hafa sinn eigin fatastíl, sumir velja brjálæðislega tacky gamall Kínverji sem glitrar allur og er með þykka gullkeðju, aðrir égáofmikinnpening til að eyða í föt en mikið er ég fín týpuna, margir í gallabuxum, converse skóm með stóra tösku og derhúfu. Stelpurnar í minipilsum og gylltum skóm. Enn aðrir og furðumargir klæða sig í ÉG ER KENNSLUBÓK FYRIR HOMMA, EF ÞÚ ERT HOMMI ÁTTU AÐ KLÆÐA ÞIG SVONA. ÉG ER ÓUMDEILANLEGUR HOMMI. ÞÓ ÉG HALDI Í HÖND KÆRUSTUNNAR MINNAR. DON´T YOU DOUBT IT. stíl. Ég á eftir að sakna fjölbreytninnar hvað föt varðar heima, ég mun líka sakna þess að geta borðað bókstaflega hvað sem er, hvenær sem er. Ég mun njóta þess að elda ef ég man ennþá aðferðirnar, mér finnst fyndið að ég sé að koma heim, ég bjóst ekkert við því að koma heim. Svona breytast áherslurnar. Sjáum til hvað ég staldra lengi við. Hlakka allavega til að fagna afmæli Eddu með henni en við höfum misst af afmælum hinnar til skiptis undanfarin 3 ár. Amma verður líka með pönnukökuboð og þá hitti ég skemmtilega frændfólkið mitt. Urlaubsfólk stingur af til Þýskalands til að fresta endurfundi okkar en flestir aðrir virðast vera heima (allavega í sumar) og þá hlakka ég auðvitað til að hitta ykkur öll. Stulli ætlar að sækja mig á flugvöllinn. :)

Wednesday, April 16, 2008

Mbl.is

Takk Gutti, leita þangað næst!

Ólympíuleikvöllurinn kostaði 3,5 yuan samkvæmt mbl.is, 30 kr, rétt nóg til að kaupa sér samloku í Kína!

Haha.

Monday, April 14, 2008

Ég þarf að undirbúa mig undir próf... best að blogga!

Ég var að enda við að lesa bloggið hans Gutta. Hann fjallar oftast um pólitík á sínu bloggi enda er hann meðal þeirra sem hafa áhuga á pólitík og sögu. Einn af þessum fáu skemmtilegu áhugamönnum þessara málefna sem Lára trúir ekki að séu til. Ég hef lagt mig sérstaklega fram við að fylgjast með fréttum síðan ég varð mér til skammar í viðtalinu hjá Le Havre. Ég les Moggann á hverju degi. Þar er ekki útskýrt hvers vegna það er stríð í Darfur, hvað gerðist í Bosníu eða hvað er málið með Kosovo (fyrir utan yfirlýsingar Bjarkar). Hvergi má finna lýsingu á Sameinuðu þjóðunum, WTO, R2P, þetta er engin kennslubók. Ég yrði mér alveg jafnmikið til skammar í dag.
Því miður. Auk þess kann ég litla sem enga landafræði. Dominic kemst ekki yfir það að ég þekki ekki Seychelles og Stulla finnst ótrúlegt að ég rati ekki upp í Breiðholt. Eða niður. Hvað veit ég?

Núna snýst líf mitt ekki um svo merkilega hluti. Mig langar auðvitað einungis að skrifa um mitt eigið líf og ekki annarra, hvað þá hvaða áhrif viðburðir gætu haft á líf annarra eða skoðanir þeirra. Mig langar einfaldlega að segja ykkur að eftir umfangsmikla leit fann ég loksins flug heim. Ég kem heim á sumardaginn fyrsta!

Friday, April 11, 2008

Nýjar upplifanir

Flugfélagið sem ég pantaði miða aftur til Evrópu með fór á hausinn, nú er ég föst í Hong Kong og öll flug til London næstu 3 vikur upppantaðar.
Starfsmaður Fitness First sagði "now you can wear a dress, you look better now" við mig í dag. Óspurður.

Saturday, April 05, 2008

Is it fate that brought us together or was it destiny?

Meðan mamma, pabbi, Emil og Hallveig voru hér var glaðasólskin og skemmtilegt. Síðan þau fóru hefur verið þoka og örlítil rigning. Ekki skemmtileg rigning sem bleytir mann alveg í gegn á örfáum sekúndum heldur smádropar sem bleyta mann aldrei en fara í taugarnar á manni. Moskítóflugurnar hafa líka vaknað til lífsins og nú tekið upp á því að bíta í gegnum leggings, mér til mikillar ánægju. Í gær læsti Felicia mig óvart úti, ég fór til landlordsins (kann ekki íslensku lengur, þið verðið að fyrirgefa) og hann átti heldur ekki lykil að þessari hurð, hann baðst afsökunar á því og steig aftur inn í sitt heimili og naut hlýjunnar en skildi mig eftir í smárigningunni. Sem betur fer eru íbúar þessa þorps nógu félagslyndir til að hafa útbúið einskonar stofu við inngang þorpsins. Þar eru fínustu stólar, þak og meira að segja ljós. Ég sat því í leðurstól með fæturnar upp á leðurskemli og las Who´s Afraid of Virginia Wolf meðan Felicia svaf. Þremur tímum síðar tókst mér að vekja konuna og í dag bauð hún mér uppá hádegisverð vegna sektarkenndarinnar. Margt skrýtið gerðist í síðustu viku, einkaþjálfari stal regnhlífinni minni og ég hitti kínverska konu í lestinni (kemur ykkur kannski ekki á óvart að hún sé kínversk en ég meina frá meginlandinu) og við ætlum að hittast á morgun og læra af hvor annarri, ég mun kenna henni enska málfræði og hún mér kínverskt talmál. Síðan fór ég í tvöfalt afmæli og þar lærði ég margt skemmtilegt um kínverska og norska menningu. Flest reglur um að skera afmæliskökur og bjóða fram á þann hátt að maður eigi enn séns í að gifta sig. Áhugaverðast þótti mér reyndar þegar ég var í H&M með kínverskri vinkonu minni og hún benti á græna hatta og sagði "Ha, grænir hattar, en skrýtið! Kínverjar myndu ekki kaupa græna hatta.", hvers vegna ekki???? "Vegna þess að það þýðir að konan þín sé að halda framhjá þér, þegar konur halda framhjá eiginmönnum sínum gefa þær þeim grænan hatt". Eðlilega. Erum við ekki með svipað system heima? Svona "ég er að halda framhjá þér elskan" gjöf? Ég fór í viðtal hjá Le Havre, klúðraði því alveg prýðilega. Segðu okkur frá Kosovo. Bosníu. Darfur. Kambódíu. Hvað gerðist, hvenær, hvers vegna, hve margir dóu? Hvernig virka Sameinuðu þjóðirnar? Hvaða lönd hafa neitunarvald? Hvers vegna. Hvað er WTO? Hvernig virkar það? Hver voru helstu mál þess á fundinum í desember. Hvers vegna hrundi efnahagur Bandaríkjanna? Hvenær gerðist það? Hvaða áhrif hefur það á aðrar heimsálfur? Hvað er R2P? Hvað gæti valdið því erfiðleikum? Lestu ekki dagblöð? Horfirðu ekki á sjónvarp? Þú virðist ekki hafa neinn áhuga á sögu eða pólitík, hvers vegna sóttirðu um hjá okkur? Common knowledge... jæja þá. Síðan hef ég verið ásótt af Frökkum, Frakkar á kaffihúsum, Frakkar í partýum, Frakkar Frakkar allsstaðar. Hrokafullir og leiðinlegir. Ég er ekki bitur, ég er ásótt af steríótýpískum Frökkum.

Sunday, March 30, 2008

Fjallganga dagsins

Í dag vaknaði ég við símtal um að ég hefði lofað mér í fjallgöngu. "En það er þoka!" - "Það er besta veðrið fyrir fjallgöngu og það er meiri þoka þar sem þú býrð en annars staðar". "En ég á enga skó". - "Ég skal gefa þér skó, kem með þá". "En það er sunnudagur". . . Engin rök komu mér úr þessari stöðu, ég hitti Dom því 2 klukkustundum síðar og við lögðum af stað. Hann þekkir mig, ég er ekki í góðu formi og mér finnst ekki gaman að fara hratt eða upp bratt. Ég bjóst því við afslappaðri fjallgöngu upp eitt fjall og jafnvel niður aftur. Dom er hinsvegar ekki þekktur fyrir hófsemi í svona málum frekar en öðrum og skipulagði göngu okkar þannig að við gengum hálfa Hong Kong Trail eða 26 km, upp 8 fjöll og niður aftur. Þar á meðal Dragons back sem er þriðji hæsti tindur Hong Kong. Þetta tók 6 klst en í bókum um fjallgöngur í Hong Kong er þetta 9 klst ganga. Hann hefði verið mun fljótari en ég harðneitaði að skokka. Neitt. Eftir gönguna fékk ég mér fish og chips með bjór, maður má ekki ganga of langt í heilsuátökum. Þetta var samt mjög skemmtileg ganga og þó ég hafi gengið mestallan tímann í þoku fékk ég smá lit.

Saturday, March 29, 2008

Bring back the 80´s!





Nú haldið þið e.t.v. að ég hafi misskilið aðeins hvað 80´s snérust um þó ég sé svona máluð og í leggings og alles en í rauninni er það ekki ást mína á 80´s og ofurhressri tónlist tímabilsins sem veldur því að ég er svona. Heldur var það eldamennskan. Ég eldaði mexíkó-omlettu í dag sem varð að eggjahræru því ég er of óþolinmóð til að elda omlettur. Í henni voru gular baunir, hvítlaukur, túnfiskur og chilli, grænt og rautt, mjög litlir chilli. Ég ákvað eftir þónokkra umhugsun að taka innan úr chillinu og ég sé ekki eftir því. Ég er nefnilega ennþá brennd á milli fingurna og hvar sem ég snerti andlitið mitt á meðan ég hafði til matinn, matinn sem ég er löngu búin að klára. Þess vegna er ég með sólarvörn hér og þar og þarf reglulega að skreppa inn á bað og láta hendurnar liggja í köldu vatni. Þetta var samt mjög bragðgott. Í gær komst ég að því að það má sjóða kjúkling, ég ætlaði að gufusjóða hann en setti aðeins og mikið vatn og já, allt er ætt ef maður hellir soya yfir það fyrst.

Tuesday, March 25, 2008

Thordarson Family Time (in Hong Kong)




Mikið á ég skemmtilega foreldra! Þeir eru nú í Hong Kong og mér sýnist á öllu að þau skilji hvers vegna ég er svona svakalega hrifin af borginni. Við höfum skemmt okkur mjög vel, mamma hefur lært að segja eitt orð á kínversku og pabba alltaf hrósað fyrir prjónakunnáttu sína. Höfum helst skoðað staði sem mér finnst skemmtilegir, blanda af túristasvæðum og börum eða veitingastöðum sem ég er hrifin af. Hallveig og Emil eru líka komin og við fórum öll saman til Pekín, þar vorum við túristar nema Emil sem var veikur mestallan tímann. Við hin fórum á múrinn fræga þar sem var enn snjór og við skoðuðum öll saman Forbidden City og Tianmen square. Við fengum okkur að sjálfsögðu Pekínönd sem mér finnst persónulega mun betri í Hong Kong en mamma hefur ákveðið að panta önd á hverjum degi í Kína sem ég er afar sátt við. Keyptum okkur kínversk föt á silkimarkaðnum og skoðuðum kort. Í gær átti Emil afmæli og á morgun á mamma afmæli þ.a. það stóð til að fagna í dag á Macau en maturinn þar er skemmtilegur. Ég gleymdi vegabréfinu heima þ.a. ég komst ekki með þangað!

Saturday, March 08, 2008

Wen wo! ("Spurðu mig" / "Kysstu mig" , fer eftir tóninum)

Konudagur í Kína! Þorpið mitt er með hátíðarhöld í tilefni þess, hér ber helst að fagna þess hve móðurin er frábær, frekar en eiginkonan. Í dag er morð á forsíðu South China Morning Post og Felicia sagði mér að í æsku sinni spurði hún móður sína alltaf "why did the man kill her?" - "Because he´s bad" - "ok I know he´s bad but why did he kill her?" - "because he´s Superbad!" sem mér fannst skemmtileg skilgreining á morðingjum. Skólinn heldur áfram í sinni rútínu nema kennararnir halda að við Dom séum trúlofuð. Hann skrifaði nefnilega á leyfisbréfið (sem við þurfum að fylla út ef við mætum ekki í skólann) að það væri fjölskyldufundur hjá fjölskyldunni hans vegna þess að við værum trúlofuð. Þetta var náttúrulega brandari enda vita allir með hálfan heila að hann er hommi. Kennurum okkar finnst það hinsvegar skipta litlu máli og fyrsta sem ég var spurð þegar ég mætti aftur í skólann var "hvenær viltu gifta þig?" og ég sem var búin að steingleyma þessum brandara svaraði "ha? gifta mig? Ehh.... ég hef nú ekkert pælt í því kannski seinna bara" og ruglaði kennarann svolítið í rýminu. Annar kennari kom með myndavél í skólann til að taka myndir með okkur og allar kórísku eiginkonurnar æptu upp fyrir sig "nei nei nei" þegar þær fréttu þetta og vöruðu mig við því að ég ætti ekki að giftast Dom. Ég sagði þeim að ég ætti í raun kærasta á Íslandi sem yrði ekki par ánægður ef ég gifti mig hérna og þetta væri brandari, þær róuðust við það og hlógu í kór. Filippseyjar voru dásamlegar, þvílíkt afslappandi ferð, rosalegur sólbruni sem fylgdi. Ég hef tekið eftir því að þetta er ekki besta leiðin til að fá samúð frá Íslendingum í dag. "Ég er svo sólbrennd, aumingja ég". Það er víst snjór eða eitthvað álíka hallærislegt hjá ykkur. Við fórum til eyju sem heitir Siquijor og er nefnd Voodoo island, þar má finna alskyns galdramenn og sniðugheit. Dásamlegt. Ég hitti Jónas Sen líka því hann bauð okkur Dom á Bjarkartónleika sem voru magnaðir og hann var mjög hress. Mamma og pabbi koma á miðvikudaginn! :)

Tuesday, February 26, 2008

Lærdómurinn og lífið

Í dag gerði ég hin klassísku mistök að segja "ma" í vitlausum tóni. Ég hélt því þarmeð fram að mér þætti best að ræða ákvarðanir við hestinn minn. Svo sagðist ég líka kaupa notuð (second hand) tré. Þetta fannst kennaranum mínum mjög fyndið, benti út um gluggann, stappaði öðrum fæti, hló og sagði "tré tré tré" á kínversku. Today is not my day. Hlustunaræfingin var mjög skemmtileg. Þetta var samtal á milli hjóna og það versta er að ég trúi því alveg (miðað við mína reynslu) að kínversk hjón eigi svona samtöl:

Kk: Sjáðu eiginkonuna hans Pin, búin að eiga þrjú börn en samt svona falleg.
Kvk: Afhverju finnst þér ég ekki falleg?
Kk: Ha? Ég sagði það ekkert, þú ert alveg falleg, bara svolítið feit.
Kvk: Elskarðu mig ekki vegna þess hve feit ég er?
Kk: Ha? Auðvitað elska ég þig, ef ég elska þig ekki, hvern á ég þá að elska?
Kvk: Svaraðu mér strax, elskarðu mig eða ekki?
Kk: Elska! Ég elska þig.
Kvk: Þú myndir elska mig meira ef ég væri grönn.
Kk: Ef þú værir jafngrönn og eiginkona Pin værirðu mun fallegri en hún, þú værir fallegust allra, andlit þitt er svo fagurt.
Kvk: Hvers vegna ertu með mér fyrst þér finnst ég svona feit?
Kk: Þetta er ekki það sem ég meinti en þegar við kynntumst varstu eins og kókakóla flaska í laginu.
Kvk: Og núna?
Kk: Núna? Ehh... þú ert eins og kókakóladós.
(smellur)
Kk: Æææ.

Þetta læri ég og lífið er gott.

Monday, February 18, 2008

Thid heppin!

Mer var skipad ad dunda mer i tolvunni i nokkrar minutur a medan Dominic lykur vid heimanamid sitt, sidan aetlum vid ad skoda flug og hotel og skipuleggja fleiri ferdalog fyrir thetta lif! Skemmtilega lif! Annars er allt gott ad fretta af mer nema eg er med sma kvef og i hvert skipti sem madur hostar eda sygur upp i nefid horfir folk a mann med "afhverjuertthuekkimedgrimuertuadreynaadsmitaokkurollafsars?" svip sem er ekki serstaklega anaegjulegt!

Foreldrar minir eru a leid til Hong Kong asamt Hallveigu og Emil i mars og eg hlakka svakalega til ad fa thau oll saman. Philip vinur minn var i heimsokn um helgina og vid hittum pabba hans sem er yndislegur Japani sem stundadi heimspekinam og stofnadi sidan trading company. Hann kann eiginlega enga ensku thannig ad vid brostumst bara a.

Þessir Indverjar

Tailor mam?
No
Where are you from mam?
Iceland
I have many customers from Iceland mam!
I doubt that
Yes very fashion, my prices are very good, you see my prices?
No
Oh, is this your first time to Hong Kong?
No I live here
Oh really where you live
Sai Kung, look I don´t want to buy anything
Ok, can I be your friend?
No
Oh, I know you don´t want to buy anything but maybe we can be friends, you give me your number and we stay in touch
No
No??? Oh ok, well maybe next time, goodbye
See ya.

3 skrefum síðar

Tailor mam?

NO NO NO NO NO NO NO NO !

Sunday, February 10, 2008

Sunday bloody Sunday

Eða gloomy eða eitthvað í þeim dúr. Nú er ég hætt að vera góð fyrirmynd fyrir unga fólkið og eyddi deginum í að hlusta á tónlist og spjalla í símann. Fór bara útúr húsi til að fá mér að borða með Felicia en við höfðum báðar gert nákvæmlega ekki neitt allan daginn. Enda gott djamm í gær. Ég hitti tvo hommavini mína og við drukkum nokkrar hvítvínsflöskur, nokkur skot og fengum okkur loks Ben&Jerries ís. Skemmtilegir þessir hommar.

Friday, February 08, 2008

新年快乐!

Megi ár rottunnar vera ykkur lukkulegt!

Ég fagna því með því að fara í hof og tilbiðja Buddha (ekki segja ömmu þetta), kaupa mér rauð föt til að ganga í, sópa til austurs meðan ég tek til inni hjá mér (nema ég á engan sóp þannig að ég ryksuga bara til austurs), kaupa nýja skó (þetta er mikilvægt) og borða borða borða. Síðan hef ég gert lítið sem ekki neitt, smá djamm, hræðilega léleg bíómynd sem notar kungfu til að spila körfubolta, mikill lestur og rauðvín. Gaman að vera í fríi.

Sunday, February 03, 2008

Fyrsta prófið

Jæja!!! Þetta er allt sem ég hef að segja um fyrsta próf annarinnar.
Best að drekka til að gleyma eins og Stulli segir (jú mamma, hann er víst fyrirmyndarmaður). Svo er reyndar frí í þessari viku, kínverskt nýár! Held ég skreppi til Kína með Dom og Yosuke sem er japanskur bekkjarfélagi minn sem er með svona ekta badboy look. Fyndinn því hann kann ekki ensku og litla kínversku þ.a. samtöl við hann eru hálfskrýting og vara stutt. Annars geri ég voða lítið annað þessa dagana en fara í skólann, borða, drekka kaffi, fara í ræktina, tala við Stulla, lesa og læra. Rosalega góð fyrirmynd fyrir unga fólkið.

Monday, January 28, 2008

Tooodaaayyyyyyy

Í dag á merkileg kona afmæli, kona sem ég elska og hefur gengið mér í móðurstað þar til rottur og óhreinindi neyddu móður mína aftur til mín. Sú kona sem um er rætt er algjörlega einstök, falleg, skemmtileg og ótrúlega hugmyndarík. Geislandi af sköpunargleði og góðmennsku og í miklu uppáhaldi hjá mér. Gefur góð, og það sem meira er, frumleg ráð um lífið og tilveruna og eykur yndi heimsins ósjálfrátt með nærveru sinni. Til hamingju með afmælið Frau Urlaub!

Back again

Halló halló halló.

Nú er ég komin aftur úr ferðalaginu mínu, safe and sound eins og Bretar segja. Hitti reyndar enga Breta en kynntist mörgum Áströlum, Könum, Þjóðverjum og Ítölum. Var mest með Ítölunum, ótrúlega skemmtilegir og hressir, mér finnst líka gaman að skilja hvað um er að vera án þess að tala tungumálið einfaldlega vegna þess hve mikið þeir nota handahreyfingar svi mikið þegar þeir tjá sig.
Við sigldum niður Mekong á og skoðuðum söfn, borðuðum og borðuðum og drukkum og djömmuðum og þetta var í heildina séð mjög svo skemmtileg ferð. Einhverjir vina minna munu líklega setja upp myndir en ég gleymdi sjálf myndavélinni þ.a. þið verðið bara að bíða ef þið hafið áhuga á að skoða myndir frá Ho Chi Minh.
Mér fannst Hanoi skemmtilegri en Ho Chi Minh og mæli frekar með því að fólk skelli sér til norðurhluta landsins en þetta er yndislegt land, maturinn frábær og fólkið skemmtilegt og vinalegt þó það séu ekki liðin nema örfáir áratugir frá stríðinu.

Thursday, January 17, 2008

Visa visa

Nú er þetta allt komið á hreint og ég er m.a.s. búin að sækja um vegabréfsáritun til Víetnam en þangað ætla ég á miðvikudaginn!
Mér fannst mjög skondið að víetnamíska sendiráðið er staðsett í háhýsi sem ber nafnið Great Smart Tower.
Þau eru ekkert að skafa utan af hlutunum!

Thursday, January 10, 2008

2008

Þetta ár byrjaði, eins og ævi mín, á Íslandi. Fljótlega fluttist ég til útlanda.
Nú er ég í Hong Kong og mér er bannað að mæta í skólann því visa-ð mitt er ekki tilbúið.
Ég er ekta Íslendingur, í vandræðum með visa í janúarmánuði.
Jólin voru frábær, mamma tjáir ást sína með matreiðslu, ég er viss um það.
Enda brenndi hún niður eldhúsið í fyrsta sinn sem hún eldaði fyrir pabba, eldheit ást.
Sjaldan hefur verið jafnskemmtilegt á Íslandi, vinna og vinir, fjölskylda og ást, matur, vín og tónlist.
Kaffihúsaferðir og leikhúsferðir, húsferðir með menningarvitum. Dans með óvitum.
Skemmtun, skemmtun, skemmtun.
Nú tekur skemmtilega námsefnið við!

我很喜欢学中文!