Ég var að enda við að lesa bloggið hans Gutta. Hann fjallar oftast um pólitík á sínu bloggi enda er hann meðal þeirra sem hafa áhuga á pólitík og sögu. Einn af þessum fáu skemmtilegu áhugamönnum þessara málefna sem Lára trúir ekki að séu til. Ég hef lagt mig sérstaklega fram við að fylgjast með fréttum síðan ég varð mér til skammar í viðtalinu hjá Le Havre. Ég les Moggann á hverju degi. Þar er ekki útskýrt hvers vegna það er stríð í Darfur, hvað gerðist í Bosníu eða hvað er málið með Kosovo (fyrir utan yfirlýsingar Bjarkar). Hvergi má finna lýsingu á Sameinuðu þjóðunum, WTO, R2P, þetta er engin kennslubók. Ég yrði mér alveg jafnmikið til skammar í dag.
Því miður. Auk þess kann ég litla sem enga landafræði. Dominic kemst ekki yfir það að ég þekki ekki Seychelles og Stulla finnst ótrúlegt að ég rati ekki upp í Breiðholt. Eða niður. Hvað veit ég?
Núna snýst líf mitt ekki um svo merkilega hluti. Mig langar auðvitað einungis að skrifa um mitt eigið líf og ekki annarra, hvað þá hvaða áhrif viðburðir gætu haft á líf annarra eða skoðanir þeirra. Mig langar einfaldlega að segja ykkur að eftir umfangsmikla leit fann ég loksins flug heim. Ég kem heim á sumardaginn fyrsta!
No comments:
Post a Comment