Börnin voru mjög góð í morgun, ég var svo lengi að koma fér framúr (vegna leti, ekki verkja) að þau borðuðu morgunmat heima. Svo lögðum við af stað, Hrafn renndi sér niður stigana og klifraði upp í vagn sem Eyrún hafði haft til fyrir hann og Eyrún opnaði hurðina og beið eftir okkur.
Ég talaði við VR og Tryggingarnar til að sjá hvaða réttindi ég hef varðandi launalækkun þegar ég minnka við mig. VR heldur laununum í 80% í 9 mánuði. Tryggingarnar bjóða ekkert nema það sé alvarlegur sjúkdómur eða slys. Annars er ég með mjög fínar tryggingar miðað við minn aldur samkvæmt tappanum sem ég talaði við.
Svo horfði ég á OC þar til Sturla vaknaði (hann er á næturvöktum). Við fórum svo í deit í Mjóddina (classic!), tælenski staðurinn varð fyrir valinu þrátt fyrir tilboð á Subway. Tom ka kai súpa er í miklu uppáhaldi hjá mér þ.a. ég fékk mér slíka súpu en borðaði aðeins hálfan skammt af hrísgrjónum.
Össur hefur nokkrum sinnum minnst á að það hjálpi ekki mikið við bakverkjum að liggja í rúminu þ.a. ég hef reynt að ganga svolítið síðustu daga og nú fórum við hjónin í sund. Fyrst vorum við mjög lengi í nuddpottinum, ráð frá Braga svila mínum, svo synti ég nokkrar ferðir í skriðsundi. Það var æðislegt, í vatni get ég hreyft mig og þó ég syndi hægt þá get ég gert allar hreyfingarnar. Mér finnst íslenskar sundlaugar frábærar og sakna þeirra þegar ég er erlendis. Þegar mér var orðið kalt í sundlauginni skelltum við okkur í heitasta pottinn, svo kalda sturtu og sauna og loks kalda sturtu. Þvílíkir munur! Eftir sundferðina leið mér mikið betur og gat tekið stærri skref. Við sóttum börnin okkar og fórum til tengdó í mat.
Þar var lambasteik og heljarinnar veisla, gulrætur, baunir og kartöflur úr garðinum. Baunirnar og gulræturnar voru bornar fram hráar, þær voru dísætar og afskaplega bragðgóðar. Svo var maís og sveppasósa. Ég eldaði semsagt ekki neitt í dag en borðaði þó vel.
No comments:
Post a Comment