Thursday, September 21, 2017

Eldað með listakonu

Mér líður enn of aftur betur í dag en í gær, þó ekki svo vel að ég treysti mér út úr húsi án verkjalyfa - en það hlýtur að koma að því.

Allt gekk vel í morgun, Hrafn vakti mig með kossi og Eyrún kom og knúsaði mig þ.a. ég var í hálfgerðri sæluvímu í byrjun dags, Eyrún sá um sig sjálf og var tilbúin á undan mér, Hrafn gekk niður tvær hæðir og pomsaði niður tvær og klifraði svo upp í vagninn sem Eyrún hafði fundið til fyrir hann. Ég rúllaði honum því í leikskólann og Eyrún hljóp samferða okkur og sýndi mér hvað hún gæti tekið stór skref, lítil skref og stokkið yfir polla.

Þegar ég kom heim fékk ég mér hafragraut með kókos, kanil og rúsínum, örlitlu salti og smá mjólk. Skolaði því niður með te og nartaði í carrs kex með osti. Nartaði þýðir samt að ég hafi borðað 5 kex.

Ég kíkti í heimsókn til Sigrúnar og Eddu og fékk þar einn risastóran kanilsnúð með latté.














Átti góða stund með þeim mæðgum og við ákváðum að elda saman stir-fry í hádeginu. Stir fry er alltaf skemmtilegt því þú grípur það grænmeti sem er til, steikir það með smá soja sósu og voilá - það er tilbúið. Ef Edda væri ekki í mat myndi ég bæta við 2 heilum chillium (helst rauðum) og chilliolíu.

Kínverskt stir-fry með núðlum og eggjum 

Olía
Hvítvínsedik - 2-3 msk
Soja sósa - eftir smekk
Sítrónusafi - 1 tsk (eða kreista 1/3 af sítrónu út í)
Hunang - "Dass"

Hvítlaukur, 3-4 rif
Engifer, 3 msk
Einn laukur (gulur)

Hálfur poki af frosnu wok grænmeti
Ein rauð papríka (því listakonan vildi hafa meiri litadýrð)
Hálfur poki af spínati
Einn lítill blómkálshaus
4 egg (set alltaf einu fleira en fólkið)
Lítill poki af kasjúhnetum

2 pakkar af instant núðlum (annar var með kjúklingabragði, hinn sveppabragði).

Fyrst suðum við instant núðlurnar með bragðefninu í pakkanum og létum standa.
Svo settum við olíu í wok pönnu og steiktum hvítlauk, engifer og lauk á miðlungshita þartil lyktin varð góð. Þá helltum við ediki og sojasósu yfir og bættum svo wok grænmetinu út í, smám saman skárum við niður hitt grænmetið og bættum út í. Þá héldum við áfram að hella ediki, soja sósu, sítrónusafa og hunangi yfir og pössuðum að setja lítið í einu og láta magnið ráðast af lyktinni.
Næst gerðum við gat í grænmetið í miðja pönnu og steiktum eggin þar, þetta var erfiðasta skrefið því hvorug okkar er þolinmóð en egg verða að fá smá tíma til að eldast. Þá hrærðum við þessu saman, sigtuðum núðlurnar frá vatninu og hrærðum þeim út í og bættum loks kasjúhnetunum við og slökktum undir. Rosalega auðveld uppskrift, hefðum auðveldlega getað verið sex að borða saman. Gaman að sjá Eddu elda þetta og skemmtileg stund.


























Stulli sá svo um kvöldmatinn sem var mjög góður - kjúklingaleggir með indversku kryddunum, tamari sósu og sesamfræjum + Jamaican style sætkartöflu-og-kartöfluréttur með kókos og rúsínum + Sýrð rjómasósa sem var eins og kokkteilsósa með sweetchili. Myndin týndist því miður en þetta var bæði gott og girnilegt.


No comments: