Saturday, September 23, 2017

Góðir vinir eru allt

Það segir mamma mína allavegana.

Ég er nú nokkuð sammála henni hvað það varðar.

Annars leið mér miklu betur í morgun, ótrúlegur munur - hvíldin, sundið, bólgueyðandi lyfin - allt saman eða eitthvað af þessu virkar. Svo held ég að það hjálpi líka að gera aðeins eitt heimilisstarf á viku.

Mér leið allavega nógu vel til að taka ekki verkjalyf um leið og ég vaknaði, heldur beið ég framyfir morgunmat. Svo gladdi það mig mjög að ég er ekki lengur með náladofa niður allan vinstri fótlegginn heldur aðeins í tánum og smá undir ilinni, ég er með svakalegar harðsperrur í kálfinum og lærinu en að öðru leyti góð. Ég gat setið á hnjánum og skipt á Hrafni þó mig hafi svimað aðeins við að gera það, dagurinn byrjaði semsagt mjög vel.

Svo fór ég með Eyrúnu í ballet og vorum samferða Urði vinkonu hennar, þær skottur eru nú óendanlega sætar saman í þessum bleiku balletbúningum. Hrafn var góður að fara niður stigann en sparkaði stígvélinu af sér á leiðinni og ég þurfti að ganga tilbaka og leita að því, annars var hann nú yndislegur í vagninum.

Eftir ballet fórum við í barnaafmæli hjá Rúrik frænda sem var mjög skemmtilegt, flott veisla, góðir gestir, skemmtilegt afmælisbarn og allir í góðu skapi. Ég gleymdi að taka verkjalyf áður en ég fór af stað og fann að ég réði verr við stress fyrir vikið, skammaðist í Eyrúnu þegar við vorum að bíða eftir strætó og var örg um leið og mér varð illt. Hún tók það samt ekki nærri sér sem betur fer.

Við Sturla vorum löngu búin að bjóða Jóa og Stefaníu í mat en ég treysti mér ekki til að elda og halda alvöru matarboð ein þ.a. ég bauð þeim að koma klukkan fimm og elda saman. Þau tóku vel í það enda yndislegir vinir og Jói eldaði flókna réttinn og ég þann einfalda meðan Stefanía og Sturla sinntu börnunum. Ég mæli eindregið með því að bjóða fólki í svona matarboð sem það sér um, þau gengu meira að segja frá eftir matinn.

Við prófuðum tvær týpur af grænmetisbollum, báðar hefðu mátt vera saltari og þessar indversku kryddaðri. Ég setti kartöflumjöl út í hinar og þær urðu undarlegar, harðar að utan en seigar að innan.

Grænmetisbollur:
https://kruderiogkjanabangsar.wordpress.com/2015/08/17/graenmetisbollur-med-olivu-og-basilmauki/

Indverskar grænmetisbollur:
http://www.dv.is/lifsstill/2013/8/19/langar-til-ad-breyta-matarmenningu-islendinga-QZNZCB/




Þetta var samt frábært matarboð og við spiluðum eftir matinn. Ég reyndi að taka myndir af hópnum en hann myndast misvel, í raunheimi eru þau þó öll saman mjög sæt og frábær félagsskapur.







No comments: