Sunday, September 24, 2017

Sunnudagssæla

Börnin mín vöktu mig ekki fyrr en hálfníu sem er óvenju seint og Hrafn fór líka sjálfur fram og fann sér banana þ.a. dagurinn byrjaði þægilega. Þau voru svo óendanlega sæt og róleg. Mér var ekkert svo illt og prófaði að taka bara ibufen og paratabs en það dugði ekki út daginn þ.a. ég skipti aftur yfir í parkódín seinni partinn.

Mér var mjög óglatt í morgun og það eina sem mér dettur í hug að valdi því er að í gær borðaði ég mjög mikinn sykur, sérstaklega miðað við mataræðið sem ég hef tileinkað mér undanfarið. Ég fór í barnaafmæli og fékk mér tvær sneiðar af köku þar, svo hafði ég rauðvín með matnum og svaka eftirrétt: Rjómaís með marssósu, bananabitum og þeyttum rjóma - og ég fékk mér tvær skálar af honum líka.

Morgunmaturinn var afgangur af kvöldverði gærdagsins - grænmetisbollur og smælki. Mjög gott að byrja daginn svona.





















Brunch á Borðinu, Ægissíðu, pizan er mjög þunn sem er skemmtilegt og gott kaffi. Hugsa að ég fái mér næst bara kaffi og kanilsnúð. Félagsskapurinn var samt betri en veitingarnar enda var ég með frænkum mínum sem eru stórskemmtilegar.













Við kíktum svo í smá heimsókn á Seltjarnarnes, þar var boðið upp á ávexti og pinkulitlar jarðaberjamuffins og Mía litla fór á kostum.

Kvöldmaturinn gleymdist eiginlega hjá mér en ég fór með Eddu og Beggu í bíó að sjá The Square sem er rosalega góð mynd sem lætur mann hugsa og pæla í samfélaginu. Við Edda deildum poppi, svo borðaði ég súkkulaði sem ég fann í bílnum líka. Núna ætla ég að ljúka deginum í rólegheitum með kirsuberjaskyri frá Örnu.




Saturday, September 23, 2017

Góðir vinir eru allt

Það segir mamma mína allavegana.

Ég er nú nokkuð sammála henni hvað það varðar.

Annars leið mér miklu betur í morgun, ótrúlegur munur - hvíldin, sundið, bólgueyðandi lyfin - allt saman eða eitthvað af þessu virkar. Svo held ég að það hjálpi líka að gera aðeins eitt heimilisstarf á viku.

Mér leið allavega nógu vel til að taka ekki verkjalyf um leið og ég vaknaði, heldur beið ég framyfir morgunmat. Svo gladdi það mig mjög að ég er ekki lengur með náladofa niður allan vinstri fótlegginn heldur aðeins í tánum og smá undir ilinni, ég er með svakalegar harðsperrur í kálfinum og lærinu en að öðru leyti góð. Ég gat setið á hnjánum og skipt á Hrafni þó mig hafi svimað aðeins við að gera það, dagurinn byrjaði semsagt mjög vel.

Svo fór ég með Eyrúnu í ballet og vorum samferða Urði vinkonu hennar, þær skottur eru nú óendanlega sætar saman í þessum bleiku balletbúningum. Hrafn var góður að fara niður stigann en sparkaði stígvélinu af sér á leiðinni og ég þurfti að ganga tilbaka og leita að því, annars var hann nú yndislegur í vagninum.

Eftir ballet fórum við í barnaafmæli hjá Rúrik frænda sem var mjög skemmtilegt, flott veisla, góðir gestir, skemmtilegt afmælisbarn og allir í góðu skapi. Ég gleymdi að taka verkjalyf áður en ég fór af stað og fann að ég réði verr við stress fyrir vikið, skammaðist í Eyrúnu þegar við vorum að bíða eftir strætó og var örg um leið og mér varð illt. Hún tók það samt ekki nærri sér sem betur fer.

Við Sturla vorum löngu búin að bjóða Jóa og Stefaníu í mat en ég treysti mér ekki til að elda og halda alvöru matarboð ein þ.a. ég bauð þeim að koma klukkan fimm og elda saman. Þau tóku vel í það enda yndislegir vinir og Jói eldaði flókna réttinn og ég þann einfalda meðan Stefanía og Sturla sinntu börnunum. Ég mæli eindregið með því að bjóða fólki í svona matarboð sem það sér um, þau gengu meira að segja frá eftir matinn.

Við prófuðum tvær týpur af grænmetisbollum, báðar hefðu mátt vera saltari og þessar indversku kryddaðri. Ég setti kartöflumjöl út í hinar og þær urðu undarlegar, harðar að utan en seigar að innan.

Grænmetisbollur:
https://kruderiogkjanabangsar.wordpress.com/2015/08/17/graenmetisbollur-med-olivu-og-basilmauki/

Indverskar grænmetisbollur:
http://www.dv.is/lifsstill/2013/8/19/langar-til-ad-breyta-matarmenningu-islendinga-QZNZCB/




Þetta var samt frábært matarboð og við spiluðum eftir matinn. Ég reyndi að taka myndir af hópnum en hann myndast misvel, í raunheimi eru þau þó öll saman mjög sæt og frábær félagsskapur.







It's Friday Baby!

Mér finnst föstudagar alltaf skemmtilegir, jafnvel þegar ég hef verið heima alla vikuna.

Börnin voru mjög góð í morgun, ég var svo lengi að koma fér framúr (vegna leti, ekki verkja) að þau borðuðu morgunmat heima. Svo lögðum við af stað, Hrafn renndi sér niður stigana og klifraði upp í vagn sem Eyrún hafði haft til fyrir hann og Eyrún opnaði hurðina og beið eftir okkur.




























Þegar börnin voru komin í leikskólann fór ég heim að fá mér morgunmat. Tvær sneiðar af Knudsen súrdeigs-rúgbrauði með smjöri og osti, harðsoðið egg, mömdlur og rúsínur og Örnu jógúrt með stórum kókosflögum.

Ég talaði við VR og Tryggingarnar til að sjá hvaða réttindi ég hef varðandi launalækkun þegar ég minnka við mig. VR heldur laununum í 80% í 9 mánuði. Tryggingarnar bjóða ekkert nema það sé alvarlegur sjúkdómur eða slys. Annars er ég með mjög fínar tryggingar miðað við minn aldur samkvæmt tappanum sem ég talaði við.

Svo horfði ég á OC þar til Sturla vaknaði (hann er á næturvöktum). Við fórum svo í deit í Mjóddina (classic!), tælenski staðurinn varð fyrir valinu þrátt fyrir tilboð á Subway. Tom ka kai súpa er í miklu uppáhaldi hjá mér þ.a. ég fékk mér slíka súpu en borðaði aðeins hálfan skammt af hrísgrjónum.





















Össur hefur nokkrum sinnum minnst á að það hjálpi ekki mikið við bakverkjum að liggja í rúminu þ.a. ég hef reynt að ganga svolítið síðustu daga og nú fórum við hjónin í sund. Fyrst vorum við mjög lengi í nuddpottinum, ráð frá Braga svila mínum, svo synti ég nokkrar ferðir í skriðsundi. Það var æðislegt, í vatni get ég hreyft mig og þó ég syndi hægt þá get ég gert allar hreyfingarnar. Mér finnst íslenskar sundlaugar frábærar og sakna þeirra þegar ég er erlendis. Þegar mér var orðið kalt í sundlauginni skelltum við okkur í heitasta pottinn, svo kalda sturtu og sauna og loks kalda sturtu. Þvílíkir munur! Eftir sundferðina leið mér mikið betur og gat tekið stærri skref. Við sóttum börnin okkar og fórum til tengdó í mat.

Þar var lambasteik og heljarinnar veisla, gulrætur, baunir og kartöflur úr garðinum. Baunirnar og gulræturnar voru bornar fram hráar, þær voru dísætar og afskaplega bragðgóðar. Svo var maís og sveppasósa. Ég eldaði semsagt ekki neitt í dag en borðaði þó vel.






















Thursday, September 21, 2017

Eldað með listakonu

Mér líður enn of aftur betur í dag en í gær, þó ekki svo vel að ég treysti mér út úr húsi án verkjalyfa - en það hlýtur að koma að því.

Allt gekk vel í morgun, Hrafn vakti mig með kossi og Eyrún kom og knúsaði mig þ.a. ég var í hálfgerðri sæluvímu í byrjun dags, Eyrún sá um sig sjálf og var tilbúin á undan mér, Hrafn gekk niður tvær hæðir og pomsaði niður tvær og klifraði svo upp í vagninn sem Eyrún hafði fundið til fyrir hann. Ég rúllaði honum því í leikskólann og Eyrún hljóp samferða okkur og sýndi mér hvað hún gæti tekið stór skref, lítil skref og stokkið yfir polla.

Þegar ég kom heim fékk ég mér hafragraut með kókos, kanil og rúsínum, örlitlu salti og smá mjólk. Skolaði því niður með te og nartaði í carrs kex með osti. Nartaði þýðir samt að ég hafi borðað 5 kex.

Ég kíkti í heimsókn til Sigrúnar og Eddu og fékk þar einn risastóran kanilsnúð með latté.














Átti góða stund með þeim mæðgum og við ákváðum að elda saman stir-fry í hádeginu. Stir fry er alltaf skemmtilegt því þú grípur það grænmeti sem er til, steikir það með smá soja sósu og voilá - það er tilbúið. Ef Edda væri ekki í mat myndi ég bæta við 2 heilum chillium (helst rauðum) og chilliolíu.

Kínverskt stir-fry með núðlum og eggjum 

Olía
Hvítvínsedik - 2-3 msk
Soja sósa - eftir smekk
Sítrónusafi - 1 tsk (eða kreista 1/3 af sítrónu út í)
Hunang - "Dass"

Hvítlaukur, 3-4 rif
Engifer, 3 msk
Einn laukur (gulur)

Hálfur poki af frosnu wok grænmeti
Ein rauð papríka (því listakonan vildi hafa meiri litadýrð)
Hálfur poki af spínati
Einn lítill blómkálshaus
4 egg (set alltaf einu fleira en fólkið)
Lítill poki af kasjúhnetum

2 pakkar af instant núðlum (annar var með kjúklingabragði, hinn sveppabragði).

Fyrst suðum við instant núðlurnar með bragðefninu í pakkanum og létum standa.
Svo settum við olíu í wok pönnu og steiktum hvítlauk, engifer og lauk á miðlungshita þartil lyktin varð góð. Þá helltum við ediki og sojasósu yfir og bættum svo wok grænmetinu út í, smám saman skárum við niður hitt grænmetið og bættum út í. Þá héldum við áfram að hella ediki, soja sósu, sítrónusafa og hunangi yfir og pössuðum að setja lítið í einu og láta magnið ráðast af lyktinni.
Næst gerðum við gat í grænmetið í miðja pönnu og steiktum eggin þar, þetta var erfiðasta skrefið því hvorug okkar er þolinmóð en egg verða að fá smá tíma til að eldast. Þá hrærðum við þessu saman, sigtuðum núðlurnar frá vatninu og hrærðum þeim út í og bættum loks kasjúhnetunum við og slökktum undir. Rosalega auðveld uppskrift, hefðum auðveldlega getað verið sex að borða saman. Gaman að sjá Eddu elda þetta og skemmtileg stund.


























Stulli sá svo um kvöldmatinn sem var mjög góður - kjúklingaleggir með indversku kryddunum, tamari sósu og sesamfræjum + Jamaican style sætkartöflu-og-kartöfluréttur með kókos og rúsínum + Sýrð rjómasósa sem var eins og kokkteilsósa með sweetchili. Myndin týndist því miður en þetta var bæði gott og girnilegt.


Wednesday, September 20, 2017

Allt að gerast

Mér líður mikið betur, er betri í dag en í gær.

Í morgun vaknaði ég við ungan skælbrosandi herramann sem rétti mér munnsprey og sagði "munnsprey" - búinn að læra þetta fína orð og kyssti mig svo og knúsaði eins og mesta krútt í heimi. Síðan vaknaði stórkostlega stóra systirin sem er ótrúlega dugleg og hjálpar mér mjög mikið núna og kom sér sjálf af stað. Hún kom fram af baðinu og sýndi mér að hún hafi burstað úr sér aðra tönn og var ánægð með tannleysið.

Hrafn ákvað að ganga niður alla stigana alveg sjálfur sem vakti hjá mér falsvon um að hann væri tilbúinn að labba í leikskólann í stað þess að sitja í vagni (ég vildi sleppa við að lyfta honum í eða taka hann úr vagninum). Hann var ekki tilbúinn til þess. Hann gekk að vísu alveg sjálfur en lagðist niður hjá pollum og blés í vatnið til að búa til bubblur. Honum fannst þetta mjög sniðugt og hlustaði lítið sem ekkert á mig sem útskýrði "ullabjakk, ekki gera þetta" en gat ekki lyft honum upp af jörðinni til að láta hann hætta þessu. Þ.a. þetta gerðist aftur og aftur á leiðinni en börnin náðu þó morgunmat í leikskólanum og ég var ánægð með það, kom við í bakaríinu og keypti tvö múslírúnstykki handa okkur hjónunum í morgunmat.

Ég lagði mig síðan í 4 klukkutíma og vaknaði við símtal frá bankanum; ég get endurfjármagnað húsnæðislánið og lækkað greiðslubyrðina, allt A lán, góðar fréttir. Ég hringdi líka í Domus og fékk tíma í sneiðmyndatöku 30. september og fannst þá pappírsvinnu dagsins lokið. Ég fór í sturtu og horfði á OC en gleymdi hádegismat og smurði mér því flatbrauð með osti og agúrku auk tebolla áður en ég sótti krakkana. Þau voru ánægð að sjá mig enda mætti ég snemma og kom þeim á óvart. Heimferðin gekk vel, við stoppuðum hjá færri pollum. Að vísu heimtaði Hrafn að ég héldi á sér hluta leiðarinnar, hann knúsaði fæturnar mínar þar til ég gaf undan og mér tókst að koma honum á háhest. Sem betur fer hitti ég nágrannakonu mína hjá stiganum heima því ég hafði ekki hugsað nógu langt fram í tímann til að finna hvernig barnið kæmist niður af háhestinum.

Þar sem tannálfurinn vildi mjúkan mat ákvað ég að skella í súpu, hún er mjög einföld og ég geri oft einhvers konar útgáfu af henni. Þarsem ég er að reyna að minnka bólgur ákvað ég að nota mjög mikið engifer og túrmerik og engan sykur eða mjólkurvöru.

Grænmetissúpa með kókos og túrmerik

Olía
Hálfur hvítlaukur (5-6 rif)
Stór biti af engifer (eins og tveir fingur)
Eitt búnt af vorlauk
Ein sæt kartafla (stór)
Ein krukka af kjúklingabaunum (skolaðar)
Ein dós af kókosmjólk
Vatn - 3 glös
Grænmetiskraftur  - 2 tsk

Krydd (auðvitað er þetta allt eftir smekk og má sleppa).
Túrmerik - slatti, súpan verður gul - ca. 1 msk
Kóríander - 1 tsk fræ, 3 tsk kryddið, eitt búnt lauf
Chillipipar - lítið - 1 tsk
Hvítur pipar - lítið - 1 tsk
Svartur pipar - 2 tsk
Garam Masala - 1 tsk
Kanill - 1 msk (Eyrún bað mig um að bæta þessu við því henni fannst súpan ógeðsleg áður)

Ég setti slatta af olíu í pottinn og steikti hvítlauk, engifer og vorlauk upp úr kryddblöndunni.
Ég skar sæta kartöflu í teninga og bætti við.
Þá hellti ég vatni yfir þ.a. kartaflan myndi sjóða.
Þegar suðan kom upp lækkaði ég hitann og bætti við grænmetiskraftinum og kjúklingabaununum.
Siðan fór kókosmjólkin út í.

Bragðmikil, góð og ódýr súpa.
Ef ég væri að elda fyrir fullorðna myndi ég bæta við 2-3 heilum chillium, geri það næst því börnin kunnu ekki að meta matinn (bar þeirra súpu reyndar fram með mjólk til að kæla og rúsínum).












   

























Eftir mat fórum við Sturla í leikhús og sáum Smán, mjög áhugavert leikrit sem ég mæli með.
Sturla var nógu elskulegur til að hjálpa mér að klæða mig í sokkabuxur svo ég gæti verið fín í leikhúsinu.

Það var aðeins of mikið álag fyrir mig að sitja í bíl og sitja svo heilt leikrit þ.a. ég tók verkjalyf og dreif mig í rúmið með tölvuna. Ég ætla að sofa í sokkabuxunum svo ég geti verið fín til fara á morgun en þessa vikuna hef ég verið klædd í hjólastuttbuxur, rúllukragabol og inniskó.



Tuesday, September 19, 2017

Bakverkir og lífstílsbreytingar

Ég ligg í rúminu mínu eftir langan dag þar sem eina sem ætlast var til af mér var að fara með börnin mín tvö í leikskólann.
Mér tókst það.
Það tók að vísu 40 mínútur og ætti að taka korter, en það hafðist þó.
Hrafn tafði okkur um 12 mínútur í stiganum því hann vildi láta halda á sér niður og tæplega tveggja ára guttinn skildi ekki "nei, mamma GETUR EKKI haldið á þér, ég VIL ALVEG halda á þér en ég get það ekki, þú verður að labba" eða ef hann skildi það þá fannst honum rökin ekki nógu góð.

Síðan þá hef ég legið í rúminu, tekið sex parkódín og þrjár íbúfen, drukkið mikið vatn, reynt að teygja án þess að hreyfa hrygginn og hvílt mig. Mér var nefnilega skipað að vera heima og hvíla mig í viku vegna bólgu og bakverkja.

Læknirinn harðneitaði að giska hvað gæti verið að en ætlar að senda mig í sneiðmyndatöku. Mér finnst líklegt að ég sé með klemmda taug því ég er með náladofa í vinstri fætinum. Rósa heldur að ég sé með brjósklos. Google telur líklegt að ég sé með klemmda taug, brjósklos, æxli eða MS. Ég er ánægð með lækninn fyrir að neita að giska.

Hann ætlar að tala við mig aftur þegar hann fær niðurstöður ur sneiðmyndatökunni. Sem minnir mig á að ég þarf að hringja í Domus og reka á eftir henni, þau áttu að hringja í mig í dag.

Læknirinn sagði mér líka að ég þyrfti að fara í sjúkraþjálfun "því þú ræður greinilega ekki við þetta ein" og að minnka við mig vinnu "þú ættir að fá þér svona hlutastarf eins og margar konur eru í". Þ.a. ég mun gera það. Ekkert annað í stöðunni en að setja heilsuna í fyrsta sætið, heimilið í annað og vinnuna í þriðja.

Ég ætla að blogga um þetta í leiðinni, svona fyrst ég mun hafa tíma til þess.

Það sem liggur fyrir er að ég er að ofgera mér, líkamlega. Mér líður betur í dag heldur en mér leið í gær þökk sé hvíldinni, lyfjunum, og kremunum.

Í gær gekk ég niður í Mjódd, sem tekur venjulega 8 mínútur (þetta veit ég þökk sé strætóappinu) en tók 28 mínútur. Þegar þangað var komið var ég svo kvalin vegna ofreynslu að það leið næstum yfir mig á biðstofunni, þ.e.a.s. mig svimaði svakalega. Ég bað lækni sem átti leið hjá um að rétta mér vatnsglas og sú hélt greinilega að ég væri eitthvað geðveik því hún spurði mig aftur og aftur hvern ég ætlaði að hitta og hvar ég ætti eiginlega að vera. En ég náði að drekka vatnið og hvíla bakið í frábærri stöðu þar sem ég krýp fyrir framan stól og halla mér á hann í nokkrar mínútur þar til læknirinn sem ég átti að hitta kom og ég haltraði inn til hans. Þar kom ég illa frá mér öllum upplýsingum en hann virtist samt skilja mig, aðalega skildi hann að ég væri kvalin.

 Ég set mér hérmeð þrjú markmið sem ég ætla að standa við.

1. Að hvílast nóg, neyða mig til að slaka á svo ég geti sinnt börnunum mínum.
2. Að hreyfa mig fimm sinnum í viku, þó hreyfingin fari eftir dagsforminu - ætla að leggja sérstaka áherslu á jóga.
3. Að gera matarplan, ég þarf bæði að forðast mat sem eykur bólgumyndun og að spara pening fyrst ég þarf að minnka við mig vinnu.