Jæja, þá er skólinn byrjaður og ég að sjálfsögðu orðin veik. Önnin virðist ætla að vera heldur erfið en það tekur því ekki að kvarta og kveina, hún verður hvort eð er erfið… Það styttist í Busaballið og ég get ómögulega ákveðið mig, langar mig eða langar mig ekki á þetta ball? Helmingur gesta verða svokallaðir busar og vinir þeirra, að veltast um dauðadrukknir og eflaust margir að smakka áfengi í fyrsta skipti. Þetta er svo augljós staðreynd að m.a.s. kennarar hafa heyrst segja “Ölvun ógildir miðann þannig að þið munið að bera ykkur vel þegar þið komið inn”.. Trabant heldur uppi fjöri og það verður eflaust dansað… þetta er freistandi. Ég ætla ekki að taka ákvörðun strax, ekki þegar ég ligg uppi í rúmi og reyni að hætta að vera veik. Hugarorkan virðist ekki vinna bug á kvefinu, ekki enn sem komið er en ég ætla mér ekki að gefast upp.
Ég sit nú á nýju borði, Annað Borð Frá Matsölu, eins og ég kýs að kalla það. Þetta geri ég augljóslega eingöngu vegna þess að móðir mín kær sat þarna á sínum menntaskólaárum og ég vil halda í fjölskylduhefðir. Næsta ár ætla ég að reyna að finna borð föður míns og sitja þar.
Eftir skóla fór ég í Íslandsbanka og sótti um debitkort og kredit-plús-kort. Ég verð nefnilega að hafa aðgang að launum mínum, laun mín fyrir 10-11 klst vinnu á dag, alla daga síðustu tveggja vikna… “If I were a rich girl, tralalalalalalalalala”… smá útúrdúr.
Mig langar til útlanda, það er svona hefðbundinn skólabyrjunarfílingur. Mig mun samt langa meira til útlanda þegar tekur að líða á önnina og kennarar ætlast til að ég skili eðlis- og efnafræðiskýrslum, heimadæmum í stærðfræði, heimspekiritgerðum, stjörnufræðiverkefnum og fari í munnleg frönskupróf. Þá mun ég reyna að flýja land. Ekki reyna að stoppa mig.
No comments:
Post a Comment