Tuesday, October 17, 2017

Gæti verið verra

Hvað þrá allar konur á öðrum degi blæðinga?
Barnasundnámskeið.

Stulli er í útlöndum þ.a. ég komst ekki undan.
Ég fór með Hrafni í gegn og hann var með smá niðurgang.

Perfect.

Allan sundtímann var ég smá stressuð að það yrði "slys" en á sama tíma dáðist ég að þessum fallegu, duglegu, sterku og skemmtilegu börnum mínum.

Svo fór ég í sturtu og reyndi að passa að enginn tæki eftir því að Rósa frænka væri í heimsókn.
Ég horfði í kringum mig á allar þessar konur, og skildi að ég ætti ekki að vera vandræðaleg, þær hefðu nú lent í öðru eins. M.a.s. allar mæður. Séð margt ógeðslegra.
Samt fannst mér þetta áfram sjúklega vandræðalegt.

Pabbi keyrði okkur heim og ég skellti pylsum í pottinn.
Ég hef aldrei eldað pylsur heima áður svo ég muni.
Vá hvað það er auðvelt.
Fengu allir mat á innan við 10 mínútum og Hrafn vann Hver er skítugastur? keppnina.
Hann borðaði líka tvær og hálfa pylsu og eitt pylsubrauð og drakk tvo pela, smá svangur eftir sundið.



Nágrannar mínir kíktu við til að mæla fataskápinn sem eg vil losna við.

Ég held og vona að það hafi aldrei verið svona mikið drasl heima hjá mér áður þ.a. þetta var líka vandræðalegt. Það sást að vísu í gólfið hér og þar en það gerði það eiginlega verra.
Eyrún notaði tækifærið til að fylla eitt pylsubrauð af tómatsósu og remúlaði og hljóp svo til okkar þ.a. það slettist út um alla íbúð, á gólf, skápa og veggi.
Akkúrat það sem vantaði!
En þeim var nákvæmlega sama og ætla að taka skápinn sem er æðislegt. Ég er búin að panta flamingo veggpappír fyrir svæðið.

Eftir mat hjálpuðu börnin mér að taka allt dót upp af gólfinu, Eyrún var ótrúlega hjálpsöm og við spiluðum Pál Óskar a meðan við tókum til. Nú er agætlega fínt og börnin fá koju á morgun.

Monday, October 16, 2017

Mánudagur - mæða og matur

Nú er ég búin að minnka við mig vinnu og verð í 50% starfshlutfalli. Þá kemst ég tvisvar í viku í sjúkraþjálfun og einu sinni í viku togtækið hjá sjúkraþjálfaranum sem togar mig örlítið í sundur. Það hljómar eins og pynting en er virkilega þægilegt. Ég ætla áfram einu sinni til tvisvar í mánuði í nudd hjá Guðbrandi og reyni að komast í jóga og sund líka. Ég á smá séns í þessu starfshlutfalli.

Ég hitti lækninn minn á föstudaginn og hann var ánægður að sjá svona mikinn mun á mér á þessum stutta tíma, sem betur fer eru allir sammála um að ég ætti að forðast aðgerð. Hann staðfesti að ég er með brjósklos í neðstu 2 hryggjarliðunum og lét mig fá afrit af textanum úr myndatökunni - ég skildi enga heila setningu því þetta var allt á latínu. Hann fullvissaði mig um að þetta væri bara brjósklos, engin ástæða til að athuga neitt annað og ólíklegt að ég sé með gigt. Honum fannst þetta vera skólabókardæmi um brjósklos og ég er fegin því. Hann sagði mér að halda áfram að taka verkjalyf meðan ég þyrfti þau til að halda mér á hreyfingu og koma aftur eftir mánuð til að taka stöðuna í sambandi við starfshlutfallið. Við vonum að þetta gangi til baka a 3 mánuðum. 

Í morgun fór ég í sjúkraþjálfun og komst óvænt í tog í leiðinni og þetta breytti deginum, mér leið svo mikið betur eftir tímann. Svo fór ég í vinnuna.

Eftir vinnu ákvað ég að hafa einfaldan mat því það er jú mánudagur og börnin verða snemma svöng og þreytt og þar af leiðandi erfið. Ég keypti mér tilbúið pítsadeig og lét senda það heim frá Netto um helgina ásamt öllu öðru sem ég ætlaði að borða þessa viku sem Sturla er í Nice. Það hef ég aldrei gert áður enda sýndi það sig í dag þegar ég tók deig úr frystinum sem ég átti víst að geyma í kæli. Korter í sex var deigið í köldu vatnsbaði sem ég vonaði innilega að myndi afþíða það á fimm mínútum.



Það gekk ekki þ.a. í staðinn prófaði ég eitt sem ég hafði lesið um á netinu. Tortilla-pítsur.
Það var ÆÐISLEGA GAMAN að búa þær til með börnunum. 

Eyrún náði að sýna listræna hæfileika sína þegar hún sprautaði tómatsósu á fyrstu tortilla-kökuna.
Svo þurfti hún að drepa kallinn.





Þau settu allt áleggið á pítsurnar.
Mér fannst frábært að þau héldu að snakk væri álegg.





Meðan við biðum eftir að fyrsta "pítsan" bakaðist voru þau of upptekin við að setja á næstu til að kvarta yfir svengd. 




Þau lögðu á borð - þau eru orðin vön því og ég þarf ekki að taka fram að ég geti ekki beygt mig lengur.




Svo borðuðum við saman, ótrúlega auðvelt, rosalega gaman.
Tómatsósa er samt fáranlega sæt og ég myndi ekki nota hana nema ég væri að elda fyrir börn - sjálf myndi ég vilja sýrðan rjóma frekar.






Svo fengu allir skyr með rjóma í eftirrétt.





Setti börnin í bað, þurfti sex handklæði til að þurrka gólfið.
Gaf þeim pakka (ég er svo mikill sökker, kenni mömmu um). 
Horfði á tónlistarmyndbönd og litaði með þeim.
Krúttin mín sofnuðu saman, sátt og sæt.



Þá var pítsadeigið tilbúið og ég skellti í eina pítsu sem var miðnætursnarlið mitt og verður nesti á morgun. Ég setti allt sem börn fíla ekki á hana; brokkollí, lauk, ananas, gráðost, chili og oregano. Hún er ágæt en frekar bragðlaus, hefði viljað hafa almennilega sósu (notaði sýrðan rjóma) og betra deig.


Stórtíðindi dagsins eru að Birta Bjartur Blær, útskriftarmyndin hans Sturlu, verður sýnd á Curta Cinema í Rio de Janeiro en það er fyrsta A-hátíðin sem hún kemst á. Sturla er núna á kvikmyndahátíð í Nice og á leið til Berlínar bráðum og vonandi kemst hann líka til Brasilíu.