Sunday, March 30, 2008
Fjallganga dagsins
Í dag vaknaði ég við símtal um að ég hefði lofað mér í fjallgöngu. "En það er þoka!" - "Það er besta veðrið fyrir fjallgöngu og það er meiri þoka þar sem þú býrð en annars staðar". "En ég á enga skó". - "Ég skal gefa þér skó, kem með þá". "En það er sunnudagur". . . Engin rök komu mér úr þessari stöðu, ég hitti Dom því 2 klukkustundum síðar og við lögðum af stað. Hann þekkir mig, ég er ekki í góðu formi og mér finnst ekki gaman að fara hratt eða upp bratt. Ég bjóst því við afslappaðri fjallgöngu upp eitt fjall og jafnvel niður aftur. Dom er hinsvegar ekki þekktur fyrir hófsemi í svona málum frekar en öðrum og skipulagði göngu okkar þannig að við gengum hálfa Hong Kong Trail eða 26 km, upp 8 fjöll og niður aftur. Þar á meðal Dragons back sem er þriðji hæsti tindur Hong Kong. Þetta tók 6 klst en í bókum um fjallgöngur í Hong Kong er þetta 9 klst ganga. Hann hefði verið mun fljótari en ég harðneitaði að skokka. Neitt. Eftir gönguna fékk ég mér fish og chips með bjór, maður má ekki ganga of langt í heilsuátökum. Þetta var samt mjög skemmtileg ganga og þó ég hafi gengið mestallan tímann í þoku fékk ég smá lit.
Saturday, March 29, 2008
Bring back the 80´s!
Nú haldið þið e.t.v. að ég hafi misskilið aðeins hvað 80´s snérust um þó ég sé svona máluð og í leggings og alles en í rauninni er það ekki ást mína á 80´s og ofurhressri tónlist tímabilsins sem veldur því að ég er svona. Heldur var það eldamennskan. Ég eldaði mexíkó-omlettu í dag sem varð að eggjahræru því ég er of óþolinmóð til að elda omlettur. Í henni voru gular baunir, hvítlaukur, túnfiskur og chilli, grænt og rautt, mjög litlir chilli. Ég ákvað eftir þónokkra umhugsun að taka innan úr chillinu og ég sé ekki eftir því. Ég er nefnilega ennþá brennd á milli fingurna og hvar sem ég snerti andlitið mitt á meðan ég hafði til matinn, matinn sem ég er löngu búin að klára. Þess vegna er ég með sólarvörn hér og þar og þarf reglulega að skreppa inn á bað og láta hendurnar liggja í köldu vatni. Þetta var samt mjög bragðgott. Í gær komst ég að því að það má sjóða kjúkling, ég ætlaði að gufusjóða hann en setti aðeins og mikið vatn og já, allt er ætt ef maður hellir soya yfir það fyrst.
Tuesday, March 25, 2008
Thordarson Family Time (in Hong Kong)
Mikið á ég skemmtilega foreldra! Þeir eru nú í Hong Kong og mér sýnist á öllu að þau skilji hvers vegna ég er svona svakalega hrifin af borginni. Við höfum skemmt okkur mjög vel, mamma hefur lært að segja eitt orð á kínversku og pabba alltaf hrósað fyrir prjónakunnáttu sína. Höfum helst skoðað staði sem mér finnst skemmtilegir, blanda af túristasvæðum og börum eða veitingastöðum sem ég er hrifin af. Hallveig og Emil eru líka komin og við fórum öll saman til Pekín, þar vorum við túristar nema Emil sem var veikur mestallan tímann. Við hin fórum á múrinn fræga þar sem var enn snjór og við skoðuðum öll saman Forbidden City og Tianmen square. Við fengum okkur að sjálfsögðu Pekínönd sem mér finnst persónulega mun betri í Hong Kong en mamma hefur ákveðið að panta önd á hverjum degi í Kína sem ég er afar sátt við. Keyptum okkur kínversk föt á silkimarkaðnum og skoðuðum kort. Í gær átti Emil afmæli og á morgun á mamma afmæli þ.a. það stóð til að fagna í dag á Macau en maturinn þar er skemmtilegur. Ég gleymdi vegabréfinu heima þ.a. ég komst ekki með þangað!
Saturday, March 08, 2008
Wen wo! ("Spurðu mig" / "Kysstu mig" , fer eftir tóninum)
Konudagur í Kína! Þorpið mitt er með hátíðarhöld í tilefni þess, hér ber helst að fagna þess hve móðurin er frábær, frekar en eiginkonan. Í dag er morð á forsíðu South China Morning Post og Felicia sagði mér að í æsku sinni spurði hún móður sína alltaf "why did the man kill her?" - "Because he´s bad" - "ok I know he´s bad but why did he kill her?" - "because he´s Superbad!" sem mér fannst skemmtileg skilgreining á morðingjum. Skólinn heldur áfram í sinni rútínu nema kennararnir halda að við Dom séum trúlofuð. Hann skrifaði nefnilega á leyfisbréfið (sem við þurfum að fylla út ef við mætum ekki í skólann) að það væri fjölskyldufundur hjá fjölskyldunni hans vegna þess að við værum trúlofuð. Þetta var náttúrulega brandari enda vita allir með hálfan heila að hann er hommi. Kennurum okkar finnst það hinsvegar skipta litlu máli og fyrsta sem ég var spurð þegar ég mætti aftur í skólann var "hvenær viltu gifta þig?" og ég sem var búin að steingleyma þessum brandara svaraði "ha? gifta mig? Ehh.... ég hef nú ekkert pælt í því kannski seinna bara" og ruglaði kennarann svolítið í rýminu. Annar kennari kom með myndavél í skólann til að taka myndir með okkur og allar kórísku eiginkonurnar æptu upp fyrir sig "nei nei nei" þegar þær fréttu þetta og vöruðu mig við því að ég ætti ekki að giftast Dom. Ég sagði þeim að ég ætti í raun kærasta á Íslandi sem yrði ekki par ánægður ef ég gifti mig hérna og þetta væri brandari, þær róuðust við það og hlógu í kór. Filippseyjar voru dásamlegar, þvílíkt afslappandi ferð, rosalegur sólbruni sem fylgdi. Ég hef tekið eftir því að þetta er ekki besta leiðin til að fá samúð frá Íslendingum í dag. "Ég er svo sólbrennd, aumingja ég". Það er víst snjór eða eitthvað álíka hallærislegt hjá ykkur. Við fórum til eyju sem heitir Siquijor og er nefnd Voodoo island, þar má finna alskyns galdramenn og sniðugheit. Dásamlegt. Ég hitti Jónas Sen líka því hann bauð okkur Dom á Bjarkartónleika sem voru magnaðir og hann var mjög hress. Mamma og pabbi koma á miðvikudaginn! :)
Subscribe to:
Posts (Atom)