Wednesday, November 28, 2007

认识你。 Gleður mig að kynnast þer.



Sælir Íslendingar!
Mig langar endilega að kynna fyrir ykkur 1215A bekk sem er bekkurinn minn hér í Chinese University of Hong Kong.
Ég ætla að kynna fólkið fremst fyrst, það eru 4 raðir, ég byrja hægra megin á hverri röð. Smellið á myndina til að sjá hana stærri og í betri gæðum.

Fyrst er það Wang Lao Shi, hann er uppahaldskennarinn minn, mjög fyndinn, teiknar skyringarmyndir og lemur nemendur. Fólk er myrt vegna þess að það hrækti út um glugga í sögunum hans. Síðan kemur Yusuke, japanskur vinur, hann er algjör player. Við hliðina á honum er Kan Jiá sem er einnig japanskur og vinnur hjá frægasta sake fyrirtæki Japan, honum er best lýst með samtali okkar Philips: Kamma: "He´s nice". Philip: "No he´s not nice, he´s wonderful!". Sem er satt, hann geislar af góðmennsku. Ég veit ekki hvað næsti heitir en mér líkar mjög vel við hann, hélt alltaf að hann væri japanskur en hann er víst kóreskur, hélt líka að hann væri frekar ungur en hann er 35 ára og á konu og 2 börn. Síðastur í þessari röð er Charles. Hann er meira en lítið skrýtinn. Stórundarlegur alveg. Ágætlega pirrandi líka. Við skulum ekki tala frekar um hann.

Næsta röð, Ming eitthvað er sú fyrsta, hún heldur alltaf að fólk skilji ekki hvað eigi að gera og útskýrir það aftur og aftur og aftur. Oftast er hún mjög hissa á svip. Stúlkan í hvítu peysunni er Donna, sem ég hef minnst á áður. Næst koma þrjár "Tætæs" eða eiginkonur, fyrsta er japönsk, næstu tvær kóreskar. Sú þriðja er vinkona mín, Han Mei Ling, hún er mjög áhyggjufull yfir því að hún sé að verða gömul og leiðir oft samtöl þangað sem fólk hrósar henni fyrir fegurð sína. Hún felur það ekkert, segir stundum að hún vilji bara fá hrós á meðan hún getur. Pluem stundar einnig nám við Polytechnic University og er að læra fatahönnun, góð stelpa en mjög upptekin. Sá sem stendur ánægður með sjálfan sig og klæðist pottþétt sandölum er Chris. Hann kemur frá Kanada, er fyndinn en örlítið hrokafullur og alltaf ALLTAF í sandölum, það er næstum kominn desember en ekkert virðist stöðva hann.

Tvær aðrar tætæs, báðar kóreskar koma næst, sú sem klæðist einungis svörtu er toppnemandi bekkjarins, síðan kemur stúlka sem er án gríns með sólarofnæmi. Hún er alltaf með regnhlíf þegar hún fer útúr húsi og ef sólin skín á hana þarf hún að fara á spítala, hún heitir Denise. Denise kemur með nýja, ekta, Prada tösku í hverri einustu viku. Þær eru víst á hagstæðu verði, einungis 200.000 kr hver. Því miður sjáið þið ekki yndislega bros Jess, hún kemur frá Tælandi og er svo hress og skemmtileg og frábær og ánægð að það er ekki eðlilegt, hún er ánægðasta manneskja sem ég þekki og lítur alltaf á björtu hliðarnar, ef maturinn er vondur hugsar hún "ég er allavega ekki svöng lengur". Frábær félagsskapur. Röndótti stráklingurinn er Dominic, þið hafið heyrt nóg um hann í gegnum tíðina. Philip stendur við hlið hans, hann er einn af mínum bestu vinum hér, japanskur og rosalegur herramaður. Týpan sem fylgir stúlkum heim þó þær séu ekki kærustur hans.

Aftast erum við Chris, þið þekkið mig vonandi og Chris er enskur. Enough said.

Nú eigum við öll einungis eitt próf eftir, eitt munnlegt próf og svo erum við frjáls! Þá mega jólin koma. Mitt er á föstudaginn!

No comments: