Ég vinn við hreingerningar í heimahúsum, stundum finnst mér fólkið sem ég vinn hjá keppast við að vera með besta kaffið, þ.e.a.s. "kaffi og með því", ein kona bakaði handa okkur eplaköku og bar fram með ís í hádeginu. Önnur vöfflur, enn önnur pönnukökur og sú síðasta sem ég ætla að monta mig af í þetta sinn lummur. Sumir eru einfaldlega æðislegir. Síðan eru þeir sem kalla mig vinnukonu, elta mig á röndum og hnussa yfir því að ég sé 19 ára. Flestir eru þó ánægðir og góðir, konan sem ég braut óvart styttu hjá (þurfti ég nokkuð að taka fram að það var óvart?) var t.d. mjög hress, sönglaði fáum mínútum síðar "hún Kamma er alltaf svo kammó!"... þetta var hvort eð er ljót stytta.
Í dag notaði ég salmíak til að þrífa baðherbergi. Ég hefði getað svarið að þetta efni væri ólöglegt. Ef það er ekkki ólöglegt ætti það að vera ólöglegt, ég er viss um að á þessum 15 mínútum sem ég notaði þetta efni hafi ég eyðilagt fleiri heilasellur heldur en með öllu áfengi sem ég hef drukkið og mun koma til með að drekka um ævina. Mig minnir reyndar að salmíak hafi orðið ólöglegt fyrir 5 árum (ég hef ekki fylgst vel með slíkum hlutum og það má vel vera og er m.a.s. mjög líklegt að þetta sé kolrangt hjá mér) en ég held að þessi kona hafi ekki verið týpan sem verslar salmíak á svörtu. Frekar týpan sem keypti það áður en það varð ólöglegt og á það enn.
Ég skil ekki hvers vegna fólk heldur að sögurnar frá Kaffi Konditori hafi verið áhugaverðari en hreingerningssögurnar?!?!?!!?? Valgerði til mikillar ánægju hef ég þó fengið annað starf (hlutastarf) sem barþjónn á Apótekinu, þ.e.a.s. ef launin eru kúl. Aðrar fréttir eru þær að Árni Gunnar, litli frændi minn, komst inn í MR. Mér finnst það mjög skrýtin pæling. Litli frændi minn, sem er ásamt litlu systur sinni (Vöku) ástæða þess að mér dettur ekki í hug að reykja og reyni að nota hjálm þegar ég hjóla (til að vera góð fyrirmynd, ég veit ekki hvort ég sé fyrirmynd en just in case er best að vera góð), þessi litli frændi minn er að byrja í menntó. Ég mun hitta hann á böllum.....
Nú er þetta orðið heldur langt hjá mér en ég ef þagað nógu lengi til að afsaka það. Ég er líka orðin 19 ára og hélt í tilefni þess frábært partí heima hjá Steina, þ.e.a.s við héldum partí, ég í tilefni afmælis míns og Halli (bróðir Steina) hélt á sömu stundu partí í tilefni þess að hann flutti til Danmerkur s.l. mánudag. Hann er um þrítugt þ.a. fólk var af öllum aldri en blandaðist vel og skemmtilega. Drukkum, dönsuðum og borðuðum æðislegar kökur. Gott kvöld, gött kvöld. Ég, Steini og Halli höfðum þá búið saman í tvær vikur meðan fjölskylda þeirra var í Noregi. Það er yndislegt að búa með Steina, enda er hann æðislegur og fallegur gaur, þess vegna fóru foreldrar mínir síðan út á land, svo við getum haldið áfram að búa saman. Takk mamma.
No comments:
Post a Comment